Beint millilandaflug og ferðamynstur erlendra ferðamanna á Norður- og Austurlandi

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) hefur nú birt niðurstöður könnunar meðal erlendra ferðamanna sem nýttu sér beint millilandaflug frá Akureyri veturinn 2024–2025. Könnunin, sem var unnin í samstarfi við Isavia, Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú með stuðningi frá atvinnuvegaráðuneytinu, náði til farþega sem voru í áætlunarflugi á leið til Bretlands, Hollands eða Sviss.

Markmið rannsóknarinnar var að greina ferðamynstur, neyslu og upplifun ferðamanna sem ferðast um Norður- og Austurland utan háannar. Niðurstöðurnar sýna að beint millilandaflug að vetri skapar tækifæri fyrir svæðisbundna ferðaþjónustu og stuðlar að betri dreifingu ferðamanna.

Meirihluti ferðamanna dvaldi að mestu leyti á Norðurlandi og heimsótti meðal annars Akureyri, Goðafoss og Mývatn. Lítill hluti svarenda heimsótti Austurland en fór þá helst til Egilsstaða, að Hengifossi og Stuðlagili. Dvalartími á Austurlandi var að jafnaði styttri en á Norðurlandi en upplifunin var engu að síður mjög góð. Ferðamenn lýstu almennri ánægju með náttúru og þjónustu í báðum landshlutum. Náttúran, kyrrðin og norðurljósin var helsta aðdráttaraflið og meðmælaskor var hátt.

Margir þátttakendur sögðust líklega ekki hafa komið á Norður- og Austurland nema vegna beinna flugsamgangna sem undirstrikar mikilvægi millilandaflugs fyrir ferðaþjónustu utan suðvesturhorns landsins.

Skýrslan er aðgengileg í heild sinni hér á heimasíðu RMF.