Daði Már Steinsson og Grétar Ingi Erlendsson hljóta lokaverkefnisverðlaun SAF og RMF

Verðlaunahafar ásamt Guðrúnu Þóru Gunnarsdóttur og Helgu Árnadóttur
Verðlaunahafar ásamt Guðrúnu Þóru Gunnarsdóttur og Helgu Árnadóttur

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veittu í dag Daða Má Steinssyni og Grétari Inga Erlendssyni verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er við háskóla hér á landi. Daði Már og Grétar Ingi skrifuðu lokaverkefnið Markaðsáætlun Nordic Green Travel ehf. til BS-gráðu í ferðamálafræði við Háskóla Íslands Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður RMF og Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF afhentu verðlaunin við hátíðlega athöfn á aðalfundi SAF 2018 á Radisson Blu Hótel Sögu.

Lokaverkefnið notuðu Daði Már og Grétar Ingi til að gera markaðsgreiningu og -áætlun fyrir nýja ferðaskrifstofu, Nordic Green Travel ehf., sem hyggur á innkomu á íslenskan ferðaþjónustumarkað. Markmið greiningarinnar var að kanna hvernig nýta mætti sjálfbæra starfshætti til aðgreiningar á markaðinum. Nordic Green Travel verður bókunarsíða sem stefnir að því að hjálpa ferðamönnum að ferðast um landið með ábyrgum hætti, setja hag umhverfis og samfélags á oddinn við val á samstarfsaðilum og stuðla þannig að sjálfbærni í ferðaþjónustu á Íslandi.

Niðurstöður markaðsgreiningarinnar leiddu m.a. í ljós að þrátt fyrir styrkingu íslensku krónunnar er búist við hagvexti á helstu markaðssvæðum. Markaðskönnunin sýndi fram á að meirihluti erlendra ferðamanna voru líklegir til að velja umhverfis- og samfélagsvæna kosti í ferðamennsku fram yfir aðra. Af þessu drógu höfundar þá ályktun að pláss sé á íslenskum ferðaþjónustumarkaði fyrir fyrirtæki sem hefur sjálfbærni að leiðarljósi og að sjálfbær ferðamennska er raunhæfur kostur í ferðaþjónustu á Íslandi. Á grunni niðurstaðna greiningarinnar settu höfundar fram ítarlega markaðsáætlun fyrir Nordic Green Travel.


Í umsögn dómnefndar segir:
„Daði Már og Grétar Ingi eru vel að verðlaununum komnir. Fræðilegur bakgrunnur lokaverkefnisins er sterkur og efnistök eru bæði skýr og vel afmörkuð. Sérstaklega er áhugavert hvernig verkfærakista háskólanemans er nýtt til að svara þörfum umhverfisins. Þar er horft til sjálfbærni og ábyrgrar ferðamennsku, sem er krafa ferðamanns framtíðarinnar. Verkefnið er athyglisvert framlag bæði til nýsköpunar á þekkingu í ferðaþjónustu og til nýsköpunar á ferðaþjónustumarkaði á Íslandi. Óhætt er að segja að sú hugsun sem þarna kemur fram sé á margan hátt öðrum til eftirbreytni“.

 

Leiðbeinandi Daða Más og Grétars Inga var Magnús Haukur Ásgeirsson aðjúnkt í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Dómnefnd Lokaverkefnisverðlauna SAF og RMF skipuðu Rósbjörg Jónsdóttir sérfræðingur, fulltrúi SAF, Laufey Haraldsdóttir, fulltrúi stjórnar RMF og Eyrún Jenný Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá RMF.

Níu lokaverkefni úr grunnnámi til BS-gráðu eða BA-gráðu við háskóla hér á landi voru tilnefnd til lokaverkefnisverðlaunanna. Öll verkefnin voru framúrskarandi og fjölluðu um brýn viðfangsefni íslenskrar ferðaþjónustu. Má þar nefna öryggisáætlanir í ævintýraferðaþjónustu á Íslandi, aðgengi að fræðslu og starfsmenntun í ferðaþjónustu úti á landsbyggðinni, hönnun og áhrif varúðarskilta á náttúrustöðum á Íslandi, hlutverk og starfsaðstæður leiðsögumanna og aðstaða kvenna í ferðaþjónustu. Dómnefnd hvetur alla tilnefnda höfunda til frekari rannsókna á sínum sviðum.

 

Tilnefnd lokaverkefni úr grunnámi eru (í stafrófsröð):

Daði Már Steinsson og Grétar Ingi Erlendsson: Markaðsáætlun Nordic Green Travel ehf.
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Magnús Haukur Ásgeirsson

Halldóra Sigríður Halldórsdóttir: Ofurmömmur á ferð og flugi. Upplifun leiðsögumanna af starfi og samspil þess við fjölskyldulíf
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Edda R.H. Waage

Helgi Hannesson: Starfsmenntun og starfsþjálfun í afþreyingarferðaþjónustu á Norðurlandi. Þarfir, fræðsluleiðir og hindranir
Ferðamálafræði, Háskólinn á Hólum
Leiðbeinandi: Kjartan Bollason

Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir og Jóhanna Rut Sævarsdóttir: „Í spor risa” Áhrif alþjóðlegs skemmtiefnis á ferðamannastaði á Íslandi
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Katrín Anna Lund

Ívar Björnsson: Varúð! : staða varúðarskilta á Íslandi og Hætta/Athugið
Grafísk hönnun, Listaháskóli Íslands
Leiðbeinandi: Hörður Lárusson

Ragnar Týr Smárason: Nýliðar í ferðaþjónustufyrirtækjum. Nýliðamóttaka í íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum
Viðskiptafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Ásdís Emilsdóttir Petersen

Sara Kristjánsdóttir: Áhrif ferðalaga á lífssýn og gildi. Ferðasaga Birtu Árdal Bergsteinsdóttur
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Gunnar Þór Jóhannesson

Valgerður Káradóttir: Öryggisáætlanir í ævintýraferðaþjónustu á Íslandi. Viðhorf stjórnenda fyrirtækja í ævintýraferðaþjónustu
Ferðamálafræði, Háskólinn á Hólum
Leiðbeinandi: Ingibjörg Sigurðardóttir

Þyrí Kristínardóttir: Geta allir orðið leiðsögumenn? Um hlutverk leiðsögumanna
Ferðamálafræði, Háskólinn á Hólum
Leiðbeinandi: Kjartan Bollason