Dagskrá RMF haustið 2014

Haustdagskrá RMF er að venju viðburðarrík.

Þann 30. október heldur RMF sína árlegu Örráðstefnu sem í ár mun fjalla um umhverfismál og hvernig náttúran er að bregðast við álagi af ferðaþjónustu.
Fundurinn hefst á örfáum aðfararorðum um tilefni og tilurð fundarins. Þar á eftir munu frummælendur stíga á stokk og í stuttum 5 mínútna glærulausum erindum lýsa sinni afstöðu til stöðu þekkingar. Að því loknu verður opnað fyrir umræður og spurningar og eru aðilar úr greininni sem og fjölmiðlafólk sérstaklega hvatt til að mæta í þágu hreinskiptinnar og opinnar umræðu.
Örráðstefnan verður haldin í Öskju – náttúrfræðihúsi Háskóla Íslands (við hlið Norræna hússins) – aðalsalnum (stofa 132).

Þjóðarspegill 31. október
Starfsfólk RMF hefur undanfarin ár haldið erindi á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu í félagsvísindum sem haldin er í Háskóla Íslands, og í ár er engin undantekning. Á Þjóðarspeglinum, sem er sá fimmtándi í röðinni, munu þeir Edward H. Huijbens forstöðumaður RMF og Cristi Frent sérfræðingur halda erindi. 

Edward mun í sínu erindi „Ferðamennska á nýrri öld“ kynna hvernig hægt er að horfa til ferðamennsku og skilja hana sem hnattrænt afl og ferðamanninn sjálfan í samhengi jarðsögulegra krafta. Þar mun hann skýra frá hinu nýja jarðsögulega skeiði sem kennt er við manninn (e. Anthropocene) og er jafnan markað við upphaf 1850 og einkennist af eiginleika mannsins til að breyta umhverfi sínu á svo hnattrænan og langvarandi hátt að þess munu sjást jarðsöguleg ummerki. Loftslagsbreytingar eru helsta dæmið um slíkt.
Cristi Frent sem ætlar að halda erindi sitt á ensku, „A closer look at some inbound tourism statistics in Iceland“ mun kynna rannsókn sína á tölfræði yfir erlendum ferðamönnum sem koma til Íslands gegnum Keflavík og hvernig talningu á þessum ferðamönnum er háttað. Cristi mun einnig kynna sínar hugmyndir um hvernig hægt sé að bæta nálgunina er varðar talningu á erlendum ferðamönnum til Íslands.

Rannsóknardagar RMF
Þann 6-7. nóvember verða fjórðu rannsóknardagar RMF haldnir þar sem farið verður yfir rannsóknir sem tengjast RMF. Þar munu þeir sem að rannsóknunum vinna kynna verkefni sín og fá ítarlega endurgjöf og umræðu um þau. Verkefnakynningar að þessu sinni verða:

- Guðrún Þóra Gunnarsdóttir sem vinnur að verkefninu „Ferðaþjónusta og jaðarsamfélög – áhrif og afleiðingar á tímabilinu 2012-2014“
- Gyða Þórhallsdóttir mun kynna verkefnið sitt þar sem hún vinnur að endurtekningu þolmarkarannsókna á þeim stöðum sem unnið var á fyrir rúmum 10 árum.
- Cristi Frent kemur til með að kynna rannsókn sína sem byggist á mati á þjóðhagslegum áhrifum ferðaþjónustu og greiningu á framkvæmdum og forsendum hliðarreikninga Hagstofu Íslands.
- Hans Welling ætlar að kynna stöðuna á verkefni sínu um sjálfbæra þróun ferðamennsku í Vatnajökulsþjóðgarði.
- Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir mun ljúka þessari hrinu af verkefnakynningum með stöðuuppfærslu á verkefninu sínu um efnahagsáhrif ferðaþjónustu í dreifðum byggðum á tímabilinu 2012-2014