Doktorsvörn í ferðamálafræði: Gyða Þórhallsdóttir
Gyða Þórhallsdóttir varði doktorsritgerð sína í ferðamálafræði við Háskóla Íslands þann 23. júní síðastliðinn. Gyða er sjötti nemandinn sem lýkur doktorsprófi í ferðamálafræði frá íslenskum háskóla.
Ritgerð Gyðu ber heitið Ferðamynstur í tíma og rúmi: Skipulag og stefnumótun fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu (Mobility Patterns in Time and Space – Planning and Managing for Sustainable Tourism). Rannsóknin snýr að því að þróa og meta nýjar aðferðir til að greina ferðamynstur ferðamanna og dregur fram mikilvægar upplýsingar fyrir stefnumótun og skipulagningu sjálfbærrar ferðaþjónustu. Rannsóknin byggir á gögnum frá bifreiðateljurum, gistináttum og Bluetooth-skynjurum til að greina ferðaleiðir. Nánar má lesa um verkefnið á vef Háskóla Íslands.
Leiðbeinandi Gyðu var dr. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Í doktorsnefnd voru dr. Ian Jenkins, gestadósent við HÍ, dr. Rögnvaldur Ólafsson (lést árið 2024), Sæmundur Þorsteinsson lektor við HR og dr. Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Höfn í Hornafirði.
Andmælendur við vörnina voru dr. Anna Guðrún Edvardsdóttir, rannsóknastjóri við Háskólann á Hólum og dr. Ulrike Pröbstl-Haider, prófessor við BOKU háskólann í Austurríki. Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir prófessor við Háskóla Íslands stýrði vörninni.
Fyrir hönd RMF færði Eyrún Jenný Bjarnadóttir Gyðu blómvönd að lokinni athöfn. Stjórn og starfsfólk RMF óskar Gyðu innilega til hamingju með áfangann.