Doktorsvörn í ferðamálafræði: Magdalena Falter

Magdalena og Ingibjörg
Magdalena og Ingibjörg

Í dag varði Magdalena Falter doktorsritgerð sína í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Magdalena er þriðji nemandinn í röðinni til að útskrifast með doktorspróf í ferðamálafræði við íslenskan háskóla.

Ritgerðin ber heitið sitt Endurhugsun ferðaþjónustu með stafrænni nýsköpun? Frumkvöðlar í ferðaþjónustu í dreifbýli á Íslandi (Rethinking tourism through digital innovation? Rural tourism entrepreneurs in Iceland). Í ritgerðinni er fjallað um stafræna nýsköpun og áskoranir fyrir endurhugsun ferðaþjónustunnar með áherslu á lífsstílsfrumkvöðla í dreifbýli. Útgangspunktur rannsóknarinnar er umræða um þróun ferðaþjónustu sem ávarpar þörf fyrir að draga úr neikvæðum áhrifum atvinnugreinarinnar á áfangastaði. Rýnt er í hvernig lífsstílsfrumkvöðlar í ferðaþjónustu í dreifbýli geta mögulega haft jákvæð áhrif með notkun stafrænnar nýsköpunar. Sérstök áhersla er lögð á að kanna samband stafrænnar nýsköpunar og frumkvöðlastarfs í dreifbýli á Íslandi.

Nánar má lesa um verkefnið á vefsíðu Háskóla Íslands

Leiðbeinandi Magdalenu var dr. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Carina Ren, prófessor við Aalborg University, Danmörku og dr. Wolfgang Dorner, prófessor við Technische Hochschule Deggendorf, Þýskalandi. Andmælendur voru dr. Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri ferðamálafræðideildar Háskólans á Hólum og dr. Laila Gibson, lektor við Karlstads Universitet, Svíþjóð.

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks RMF færði Ingibjörg Sigurðardóttir Magdalenu blómvönd að lokinni athöfn.