Dr. Auður H Ingólfsdóttir hefur störf á RMF

Dr. Auður H Ingólfsdóttir
Dr. Auður H Ingólfsdóttir

Dr. Auður H Ingólfsdóttir er nýráðin sérfræðingur hér við Rannsóknamiðstöð ferðamála og mun hún sinna rannsóknum á sviði sjálfbærrar ferðamennsku og m.a. skoða tengsl loftslagsbreytinga og ferðamennsku auk samfélagsábyrgðar fyrirtækja í ferðaþjónustu

Auður er með BA gráðu í alþjóðafræðum frá University of Washington (Seattle), framhaldgráðu í hagnýtri fjölmiðlun frá HÍ, MA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Fletcher School of Law and Diplomacy, Tufts University (Boston)  og sameiginlega doktorsgráðu í alþjóðasamskiptum og kynjafræði frá University of Lapland og HÍ. Doktorsrannsóknin hennar fjallaði um loftslagsbreytingar og öryggi á Norðurslóðum þar sem hún beitti feminísku sjónarhorni við að greina þau gildi sem móta og hafa áhrif á loftslagsstefnu á Íslandi.

Auður var lektor við Háskólann á Bifröst á árunum 2010 til 2017 auk þess sem hún sinnti hlutverki sviðsstjóra Félagsvísindaviðs skólans árin 2011 til 2013. Meðal fyrri starfa Auðar má nefna blaðamennsku á Degi (1995-1997), starf sérfræðings á alþjóðaskrifstofu umhverfisráðuneytisins (2002-2003) og stöðu ráðgjafa í umhverfismálum (2003-2007). Þá starfaði hún um tíma á vegum íslensku friðargæslunnar; við vopnaeftirlit á Sri Lanka (2006) og sem jafnréttisráðgjafi hjá UNIFEM á Balkansskaga (2007-2008).

Starfsstöð Auðar verður á skrifstofu RMF á Akureyri, það er á 4. hæð Borga rannsóknahúss, við starfssvæði Háskólans á Akureyri.