Ferðamannalandið Ísland – með sjálfbærni og sanngirni að leiðarljósi?
Rannsóknamiðstöð ferðamála, í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum, stendur fyrir pallborðsumræðum um ferðamál fimmtudaginn 30. október kl. 13:30-15:00 í Háskólabíói 2.
Umræða um ferðaþjónustu og ferðamál á Íslandi hefur verið áberandi á undanförnum vikum. Þannig var til dæmis 104. tölublað Heimildarinnar lagt undir umfjöllun um ferðaþjónustu undir forsíðufyrirsögninni: Ferðamannalandið Ísland: Sáu ferðamenn í fyrsta sinn sem plágu. Í fókus var ferðaþjónustuþorpið Vík í Mýrdal en einnig var almennt fjallað um gjaldskyldu á bílastæðum, öryggismál, átroðning ferðamanna, lúxusferðamennsku og álag á heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Ferðaþjónustuaðilum fannst mörgum sem þetta væri einhliða umfjöllun og jákvæðar hliðar aukinnar ferðamennsku lítt dregnar fram.
Í pallborðinu verður fjallað á gagnrýninn hátt um það hvernig megi stýra, skipuleggja og þróa íslenska ferðaþjónustu með sjálfbærni og sanngirni að leiðarljósi. Þátttakendur verða fulltrúar greinarinnar, ríkis – og sveitarfélaga sem og háskólasamfélagsins og fjölmiðla.
Þátttakendur í pallborði
- Rannveig Ólafsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands
- Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum
- Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri
- Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans
- Pétur Óskarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF)
- Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar
- Jón Trausti Reynisson, blaðamaður og framkvæmdastjóri Heimildarinnar
Umræðustjóri: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála
Pallborðið er hluti af dagskrá Þjóðarspegilsins, árlegrar ráðstefnu félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og öll eru velkomin.

Norðurslóð 2 (E-hús-206)
600 Akureyri