Fréttir 2006

Desember 

 Skýrsla um hagræn áhrif ferðaþjónustu komin út

Með þessari skýrslu er hrundið af stað mikilvægu rannsóknarferli sem lítur að mati á hagrænum áhrifum ferðaþjónustu með tilliti til einstakra svæða á landinu. Þannig er viðfangsefni þessarar skýrslu svæðisbundið mat á framleiðni tekna af ferðafólki og leiðsögn um hvar beri að herða róðurinn í því tilliti. Þeirri aðferðafræði sem beitt er við rannsóknina er ætlað að vera til eftirbreytni og sett þannig upp að hana geta aðrir endurtekið í öðru samhengi. Ferðamálaseturs Íslands þakkar skýrsluhöfundum vel unnin störf sem og styrktaraðilum þessa verkefnis en Byggðastofnun, Háskólasjóður KEA, Rannsóknarsjóður HA og Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi gerðu setrinu kleift að láta vinna þessa skýrslu.

Lesa skýrsluna um hagræn áhrif ferðaþjónustu.

 

Sérfræðingur við Ferðamálasetur og Háskólann á Hólum, laus staða

Starf sérfræðings við Ferðamálasetur Íslands og Háskólann á Hólum er laust til umsóknar. Umsækjanda er ætlað að starfa að Hólum og stunda rannsóknir og kennslu á sviðum ferðamálafræði. Staðan skiptist til helminga milli Ferðamálaseturs og Háskólans á Hólum. Kennsluskylda er gagnvart þeim síðarnefnda, en rannsóknarskylda gagnvart Ferðamálasetri.

Um ráðningu til þriggja ára er að ræða með möguleika á fastráðningu, með þeim fyrirvara þó að fyrstu sex mánuðir skoðast sem gagnkvæmur reynslutími.

Eftirfarandi skilyrði eru höfð til hliðsjónar við ráðningu í stöðuna:

  • Að umsækjandi búi yfir sérþekkingu á einhverju eftirtalinna sviða: Umhverfisfræði, náttúrufræði, menningarfræði eða afþreyingarfræði.
  • Að umsækjandi búi yfir reynslu af og þekkingu á ferðaþjónustu á norðurslóðum.
  • Um hæfi umsækjenda fer eftir ákvæðum laga um Háskólans á Hólum.

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísindastörf sem þeir hafa unnið, ritsmíðar og rannsóknir, svo og vottorð um námsferil sinn og störf. Með umsókninni skulu send þrjú eintök af vísindalegum ritum og ritgerðum, birtum og óbirtum, sem umsækjandi óskar eftir að metin verði (á rafrænu formi í þremur eintökum). Að auki má senda umsagnir tveggja eða þriggja dómbærra manna á vísindasviði umsækjanda. Einnig er nauðsynlegt að í umsókn komi fram hvaða verkefnum umsækjendur hafa unnið að, hverju þeir vinna að núna og ítarleg lýsing á fyrirhuguðum rannsóknum þeirra ef af ráðningu yrði.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi BHM við Háskólann á Hólum.

Umsóknarfrestur er til 20. janúar 2007 og skal umsóknum og umsóknargögnum skilað í þremur eintökum til Ferðamálaseturs Íslands, Borgum við Norðurslóð, 600 Akureyri.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfum starfsins þegar ákvörðun liggur fyrir.

Nánari upplýsingar veita forstöðumaður Ferðamálaseturs, Dr. Edward H. Huijbens, edward@unak.is og deildarstjóri Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, ggunn@holar.is.

 

Nóvember

Undirritun samnings

Ferðamálastofa og Ferðamálasetur Íslands hafa gengið frá samningi sem hefur það að markmiði að efla enn frekar rannsóknir og þróun á sviði ferðaþjónustu og ferðamennsku. Í áðurnefndum samningi kemur fram að Ferðamálastofa leggur Ferðamálasetrinu til fasta fjárhæð á ári vegna rannsókna eða þróunarverkefna í ferðaþjónustu. Er m.a. kveðið á um að stofnanirnar vinni sameiginlega áætlun um hvers konar rannsóknir og/eða þróunarverkefni sem Ferðamálasetrinu er ætlað að vinna.

Undirritun samnings

 

Lokaverkefnisverðlaun afhent í annað sinn

Kynningarræða

 

Kynningarræða Edwards á lokaverkefnisverðlaununum

 

Verðlaunahafi 2006

Verðlaunahafi ársins 2006 Ýr Káradóttir

Ferðamálasetur Íslands veitir nú í annað sinn 100.000 króna verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin verða afhent á Ferðamálaráðstefnunni 2006, 16. nóvember kl. 15.45, en ráðstefnan er haldin á hótel Loftleiðum. Dómnefnd sem skipuð er stjórn og forstöðumanni FMSÍ hefur metið átta verkefni skólaársins 2005-2006 sem þóttu afar góð og/eða mjög athyglisverð en þau eru:

Að þekkja Ísland. B.Sc. ritgerð Sunnu Reynisdóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.

Glöggt er gests augað. Samskipti erlendra ferðamanna og Íslendinga á 19. öld. B.Sc. ritgerð Áslaugar Briem frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.

Gæði í gistingu. Gæðastefnur og aðferðir við mælingar á þjónustugæðum innan valinna hótelkeðja á Íslandi. B.Sc. ritgerð Ýrar Káradóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.

Hverjir eru möguleikar til markaðssetningar útivistar og ævintýraferða á Vestfjörðum? M.S. ritgerð Péturs S. Hilmarssonar frá Viðskipta og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Sólskinseyjan Ísland. Viðhorf Íslendinga til kynninga á Íslandi erlendis. B.Sc ritgerð Ástu Sigríðar Skúladóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.

Úttekt á jarðhita í Öxarfirði með tilliti til atvinnusköpunar. B.Sc. ritgerð Hildar Vésteinsdóttur frá Viðskipta og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Viðhorf nemenda í ferðamálafræðum til námsins. B.Sc. ritgerð Lýdíu Huldar Grímsdóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Samfélagsleg áhrif viðburðaferðamennsku. B.Sc. ritgerð Selmu Harðardóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.

Niðurstaða dómnefndar er að verðlaunin í ár hljóti Ýr Káradóttir fyrir B.Sc. ritgerð sína Gæði í gistingu. Gæðastefnur og aðferðir við mælingar á þjónustugæðum innan valinna hótelkeðja á Íslandi.

Í umsögn dómnefndar segir: Í verkefni sínu fjallaði Ýr Káradóttir um gæðahugtakið, þá sérstaklega með tilliti til þjónustugæða á völdum íslenskum hótelkeðjum. Þannig leitaðist hún við að átta sig á stefnu hótelkeðjanna hvað varðar gæðastjórnun og hvernig henni er fylgt eftir í daglegum rekstri.


Með viðtölum komst Ýr að því hvernig yfir- og milli stjórnendur hótelkeðjanna móta stefnu í þjónustugæðum fyrirtækjanna. Í ljós kemur að gæðastefna hótela er afar misjöfn milli fyrirtækja og hefur stærð þeirra þar afgerandi áhrif.


Helsta niðurstaða Ýrar er að eftirfylgni og mat hótelkeðjanna á eigin þjónustugæðum er töluvert á eftir því sem gerist í fræðilegri umræðu um gæðahugtakið. Hugmyndir stjórnenda um gæði voru einskorðuð við gæði starfsfólks, þjónustu við gesti og almennan aðbúnað. Hinsvegar bendir Ýr á að þjónustugæði eins og þau eru rædd í fræðunum er mun margslungnari en svo. Til að rökstyðja mál sitt beitir hún þremur ólíkum gæðakenningum fræðimanna þar sem áherslan er á starfstengd og tæknileg gæði sem borin eru saman við væntingar og síðar upplifun viðskiptavina.
Dómnefndin telur að þetta verkefni geti nýst hótelum á landinu sem stefna að því að vera alþjóðlega samkeppnis-hæf. Þannig leggur verkefnið til hvernig þau geta bætt gæði eigin þjónustu í samræmi við það sem er efst á baugi í málefnum ferðaþjónustunnar samanber efni ferðamálaráðstefnu nú.


Verkefni Ýrar er unnið af metnaði og fagmennsku og er hún verðugur handhafi verðlauna Ferðamálaseturs Íslands árið 2006.

 

Október 2006

Ferðamálasetur tekur þátt í verkefni um skotveiðiferðamennsku

Ferðamálasetur Íslands, ásamt Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri og Umhverfisstofnun, tekur nú þátt í verkefni sem gengur undir titlinum:

Sjálfbær þróun skotveiðitengdrar ferðaþjónustu á NPP svæðinu (NPPHunt)

Umsókn fyrir þetta verkefni er í vinnslu núna gegnum Interreg III B Northern Periphery Programme ásamt aðilum frá N. Svíþjóð og Finnlandi.

Verkefnið er mikilvægt fyrir Ferðamálasetur enda er hér um að ræða hluta af íslenskri ferðaþjónustu sem hefur farið nokkuð huldu höfði. Lítið fer fyrir skotveiðitengdri ferðamennska í greiningu ferðaþjónustunnar þó vissulega er hún til staðar. Hvernig hún birtist og virkar í samspili við aðra innviði ferðaþjónustu liggur beint við hæfnisviði setursins, þar sem rannsóknir hafa þegar verið gerðar á starfsemi mismunandi tegunda ferðaþjónustuinnviða. Setrið býr þannig bæði yfir reynslu og innsýn.

 

15. samnorræna ráðstefnan um ferðamálafræði haldin í Savonlinna, Finnlandi meira

 

September 2006

Ferðamálasetur hefur verið nokkuð í fréttum vikuna 4. - 8. september. Fyrst birtist grein í Morgunblaðinu sem sjá má hér. Næst kom viðtal í Fréttablaðið, miðvikudaginn 6. september en blaðið má sjá hér sem síðar olli umtali á NFS sem sjá má hér.

 

Ágúst 2006

Verkefni ársins

Starfsemi ferðamálaseturs fer nú aftur í gang eftir sumarfrí og ráðningu nýs forstöðumanns í fullt starf. Fjöldi verkefna er þegar í gangi og eru stöðugt fleiri að bætast við. Ferðamálasetur er nú aðili að:

Rannsóknum á komu skemmtiferðaskipa til Íslands sumrin 1993-1995 og 2004-2006

Tölfræðilegri úrvinnslu, greiningu, túlkun og skýrslugerð vegna könnunar meðal stjórnenda í ferðaþjónustufyrirtækjum á Íslandi.

Norrænu samstarfsverkefni um nýsköpun í ferðaþjónustu.

Norrænt samstarfsverkefni um veiðitengda ferðaþjónustu.

Rannsóknum á jeppaferðamennsku á hálendi Íslands og jeppum almennt sem ferðamáta innanlands.

Skipulagi alþjóðlegrar ráðstefnu um rými, list og umhverfi norðursins 2008.

Útgáfu bókar um rými, list og umhverfi byggt á ráðstefnu við HÍ vorið 2006.

Þróunarverkefni um akademíska ferðaþjónustu að Svartárkoti í Bárðardal.

Greinargerð um þróun ferðaþjónustuklasa á Norðurlandi.

Greinargerð og tillögu að áframhaldi þolmarka rannsókna á Íslandi.

Uppsetningu aðstöðu fyrir rannsóknarnema á framhaldsstigi í ferðamálafræðum.

Fjöldi annarra verkefna er í deiglunni sem og umsóknir um fjármagn til ráðningar fleiri starfsmanna og munu fréttir berast um leið og árangur verður og verkefni fastmótuð.

 

Júní 2006

Nýr forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands

Á stjórnarfundi 14. júní 2006 var gengið frá tímabundinni ráðningu Edward H. Huijbens sem forstöðumanns Ferðamálaseturs Íslands. Edward mun gegna stöðunni í fullu starfi til eins árs en miðað er að því að auglýsa stöðuna til fastráðningar uppúr áramótum 2006-2007.

Edward er landfræðingur sem lauk B.Sc. prófi frá Háskóla Íslands 2000, MA prófi frá Durham háskóla í Englandi síðla árs 2001 og Ph.D. prófi frá sama skóla snemma árs 2006. Samhliða því að ljúka dr. námi kenndi Edward og vann að ránnsóknum bæði við viðskipta og hagfræðideild HÍ sem og raunvísindadeild 2004-2006. Edward hefur lagt mesta stund á rannsóknir um rýmið og hvernig það verður til og mótast bæði í borg og náttúru. Hann hefur skrifað greinar, flutt erindi á fjölda erlendra ráðstefna, ritstýrt bókum og staðið fyrir ráðstefnu um landfræði og rýmið. Hann starfar nú einnig sem formaður félags landfræðinga.

Allar upplýsingar og CV er veitt eftir beiðni til: edward@unak.is