Fundað um viðbrögð ferðaþjónustuaðila við krísu í ferðaþjónustu

Rannsóknamiðstöð ferðamála er þátttakandi í Erasmus+ verkefninu Tourism Crisis Navigation sem snýr að hönnun og þróun kennsluefnis til að efla þrautseigju ferðaþjónustunnar í krísu. En að þessu verkefni koma samstarfsaðilar frá Þýskalandi, Spáni, Írlandi, Danmörku, Skotlandi og Íslandi.

Á dögunum var haldinn tveggja daga verkefnafundur í Hveragerði þar sem samstarfsaðilar verkefnisins funduðu um stöðu og áframhald verkefnisins ásamt því að fræðast um íslenska ferðaþjónustu.

Auk fundarhalda var farið í  Skyrland  á Selfossi og Hellana á Hellu. Einnig fékk hópurinn góða kynningu hjá Ragnhildi Sveinbjarnardóttur hjá Áfangastofu Suðurlands um starfsemi stofunnar og helstu áskoranir ferðaþjónustunnar á Suðurlandi á Covid tímum. Einnig var Þingvallar þjóðgarður sóttur heim en þar fræddi  Torfi Stefán Jónsson fræðslufulltrúi þátttakendur um ýmsar áskoranir er lúta að stýringu og stjórnun ferðamennsku á jafn vinsælum áfangastað og raun ber vitni. Heimsókninni á Þingvelli lauk með góðri göngu um Almannagjá og nærliggjandi svæði. Er öllum þeim sem tóku á móti verkefnahópnum færðar hinar bestu þakkir fyrir fróðlegar og áhugaverðar umræður og hlýjar móttökur.

Verkefninu ´Tourism Crisis Navigation´  er ætlað að þróa námsskrá og námsefni til að gera skólum, símenntunarstofnunum og fleiri hagaðilum kleift að bjóða uppá fræðslu og þjálfun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í ferðaþjónustu, til þess að öðlast þá færni, tæki og tól sem nauðsynleg eru til að takast á við kreppu á áhrifaríkan hátt.

Afurðirnar verða miðaðar að:

  • Litlum og meðalstórum fyrirtækjum
  • Nemendum á háskólastigi
  • Svæðisbundnu stoðkerfi ferðaþjónustunnar

Afurðir verkefnisins verða fríar og aðgengilegar öllum. Verkefninu á að ljúka seinnipart árs 2023.

https://www.tourismrecovery.eu/
https://www.facebook.com/tourismcrisisrecovery

TCrisisNav-fundur HveragerðiTCrisisNav-fundur HveragerðiTCrisisNav-fundur HveragerðiTCrisisNav-fundur Hveragerði TCrisisNav-fundur Hveragerði