Kynningafundir um tækifæri poppmenningar ferðaþjónustu

RMF hélt tvo kynningarfundi í nóvember undir yfirskriftinni Poppmenning: skapandi afl í ferðaþjónustu?. Fyrsti fundurinn var haldinn á Húsavík mánudaginn 8. nóvember á Cape Hotel Húsavík en sá síðari var haldinn rafrænt fimmtudaginn 25. nóvember.

Fundirnir voru haldnir í tengslum við evrópska samstarfsverkefnið Outpace sem RMF hefur verið aðili að undanfarin tvö ár en samstarfsaðilar verkefnisins koma frá menntastofnunum og fyrirtækjum í fimm löndum: Litháen, Bretlandi, Írlandi, Svíþjóð og Íslandi. Verkefnið er nú á lokastigi og á fundinum var fræðsluefni sem útbúið var í tengslum við verkefnið kynnt ásamt því að rædd voru tækifærin sem felast í því að nýta poppmenningu í tengslum við vörur og þjónustu innan ferðaþjónustunnar.

Hægt er að lesa meira um Outpace verkefnið á heimasíðu þess HÉR en þar er einnig hægt að nálgast allt fræðsluefnið í opnum aðgangi undir flipanum Resources.

Auður Ingólfsdóttir frá Markaðsstofu Norðurlands hélt erindi á fundinum á HúsavíkÁ fundina komu einnig áhugaverðir gestafyrirlesarar til að segja frá sínum verkefnum og hvernig þau tengjast poppmenningar ferðaþjónustu.

  • Einar Hansen Tómasson, Film in Iceland, hélt erindi um það starf sem fram fer hjá Film in Iceland hjá Íslandsstofu, helstu áherslur þeirra og hvernig Ísland sé kynnt sem tökustaður.
  • Auður Ingólfsdóttir, Markaðsstofu Norðurlands, sagði frá sínum störfum í tengslum við nýtt verkefni Markaðsstofunnar undir heitinu Film in North Iceland.
  • Dorothee Lubecki, Bókabæirnir austanfjalls, hélt erindi um tilurð verkefnisins, viðburðum sem haldnir hafa verið í tengslum við það og hver markmið þeirra séu.
  • Jón Bjarni Guðmundsson, True North, sagði frá starfsemi True North sem er íslenskt framleiðslufyrirtæki, hvernig verkefni þau taka að sér og poppmenningar ferðaþjónustutækifærum sem hafa myndast í kringum þau.
  • Dagný Hulda Jóhannsdóttir, Markaðsstofa Suðurlands, hélt erindi um aðkomu markaðsstofunnar að t.d. vali á tökustöðum, ásamt áhrifum og tækifærum tökustaða og annarrar poppmenningar fyrir ferðaþjónustu á svæðinu.
  • Örlygur Hnefill Örlygsson, Eurovision sýningin, sagði frá Eurovision ævintýrinu á Húsavík í kjölfar Eurovision myndar Will Ferrells sem tekin var upp að hluta til í bænum, ásamt athylginni í kringum Óskarstilnefningar lagsins Húsavík úr myndinni og hvernig Húsvíkingar hafa nýtt sér umtalið til að vekja athygli ferðamanna á svæðinu.

Við þökkum öllum gestafyrirlesurum kærlega fyrir að vera með okkur og fyrir áhugaverð erindi. Við viljum einnig þakka Þekkingarneti Þingeyinga og Markaðsstofu Suðurlands fyrir að vera okkur innan handar við skipulagningu og kynningu á fundunum.

 

 

 Outpace er fjármagnað af ESB Erasmus+ styrktaráætluninni.