Lokaritgerðir um ferðamál á Íslandi verðlaunaðar

Fv. Bjarnheiður Hallsdóttir formaður SAF, Lilja Karen Kjartansdóttir, Stephanie Langridge og Ásta Dí…
Fv. Bjarnheiður Hallsdóttir formaður SAF, Lilja Karen Kjartansdóttir, Stephanie Langridge og Ásta Dís Óladóttir formaður stjórnar RMF

Í gær veittu Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) tvenn verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir um ferðamál á Íslandi. Lilja Karen Kjartansdóttir hlaut verðlaun fyrir BS-ritgerð sína í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og Stephanie Langridge hlaut verðlaun fyrir MS-ritgerð sína í stjórnun ferðaþjónustu, viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Ásta Dís Óladóttir, formaður stjórnar RMF og dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands afhenti verðlaunin á aðalfundi SAF sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík en verðlaunin voru afhent í 17. sinn.

BS-ritgerð Lilju Karenar nefnist Fræðslustarf í smærri ferðaþjónustufyrirtækjum. „Samskipti eru bara númer 1, 2 og 3 sko“. Leiðbeinandi var Gunnar Þór Jóhannesson prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Í ritgerðinni var sjónum beint að því hvernig fræðslustarfi og starfsþjálfun er háttað innan lítilla ferðaþjónustufyrirtækja og hvort áhugi sé til staðar á svæðisbundnu samstarfi á milli þeirra um fræðslu.

Rannsóknin byggði á viðtölum við stjórnendur lítilla ferðaþjónustufyrirtækja um hugmyndir þeirra og reynslu af fræðslustarfi og þjálfun starfsfólks. Rannsóknin leiddi í ljós að erfitt getur verið fyrir lítil fyrirtæki að nálgast fræðslu á markvissan hátt í umhverfi þar sem fjármagn er af skornum skammti, árstíðarsveifla er oft mikil og starfsmannahópurinn fjölbreyttur. Fræðsla og þjálfun fari oft fram á óskipulagðan hátt og að tími til skipulagningar og markvissrar þjálfunar sé þar af leiðandi af skornum skammti. Þegar kom að svæðisbundnu samstarfi um fræðslu og nýliðaþjálfun voru stjórnendur almennt jákvæðir fyrir slíkum hugmyndum en áttu erfitt með að koma samstarfinu af stað og ekki var samstaða um hver ætti að sinna því.

MS-ritgerð Stephanie nefnist Umbreyting nýrra íslenskra ferðamannastaða í sjálfbæra áfangastaði: Tilviksrannsókn á eldgosinu í Geldingadal 2021 (e. Transforming emergent Icelandic tourist sites into sustainable and responsibly managed destinations: A case study of the 2021 Geldingadalur eruption in Iceland). Leiðbeinandi Stephanie var Tracy Michaud stundakennari við Háskólann í Reykjavík og lektor við University of Southern Maine í Bandaríkjunum.

Ritgerðin fjallaði um uppbyggingu eldgosasvæðisins í Geldingadal fyrir ferðamennsku og þær áskoranir sem hagsmunaaðilar standa frammi fyrir til að gera nýja ferðamannastaði að sjálfbærum áfangastöðum. Höfundur tók viðtöl við hagsmunaaðila um uppbyggingu ferðamennsku við gosstöðvarnar og studdist við ferla ábyrgrar ferðamennsku með tilliti til umhverfislegrar, félagslegrar og efnahagslegrar sjálfbærni; hvernig skuli bregðast við, skilgreina verkaskiptingu, auka gagnsæi og valdefla hagsmunaaðila til að stýra aðstæðum af ábyrgð við mótun áfangastaðar. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að eining var meðal hagsmunaaðila um að ábyrg stjórnun á svæðinu feli í sér einhvers konar aðgangsstýringu til að fyrirbyggja hnignun svæðisins. Út frá niðurstöðunum er ályktað að samskipti og samkomulag milli hagsmunaaðila um skilgreiningar á því hvað telst til sjálfbærni og ábyrgrar hegðunar séu nauðsynleg fyrir árangur við stýringu og stefnumörkun til að efla öryggi og upplifun gesta á náttúrustöðum.

María Guðmundsdóttir fv. fræðslustjóri SAF, Rannveig Ólafsdóttir prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og Eyrún Jenný Bjarnadóttir sérfræðingur RMF sátu í dómnefndinni.

 

Tilnefningar til lokaverkefnisverðlauna SAF og RMF 2022

• A Pearl of Wonders: The Creation of Perlan Museum and the Value of Simulated Natural Attractions for Nature Conservation
Höfundur: Elisa Maccagnoni, MS-gráða í ferðamálafræði, líf- og umhverfisvísindadeild, Háskóla Íslands
Leiðbeinendur: Edda Ruth Hlín Waage og Anna Dóra Sæþórsdóttir
 

• Finding the Phoenix Factor : an analysis of re-purposed industrial heritage sites in marginalised remote communities in Iceland
David Kampfner, MA-gráða í sjávarbyggðafræði, Háskólasetri Vestfjarða (viðskipta- og raunvísindasvið, Háskólinn á Akureyri)
Leiðbeinandi: Matthias Kokorsch

 

• Fræðslustarf í smærri ferðaþjónustufyrirtækjum. „Samskipti eru bara númer 1, 2 og 3 sko“
Höfundur: Lilja Karen Kjartansdóttir, BS-gráða í ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Gunnar Þór Jóhannesson

 

• Sumarið 2020 er eitt besta ferðasumar sem ég man eftir! Ferðahegðun og upplifun Íslendinga á tímum COVID-19
Elva Dögg Pálsdóttir, MS-gráða í félagsvísindum, hug- og félagsvísindasviði, Háskólanum á Akureyri
Leiðbeinandi: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir 

 

• Transforming emergent Icelandic tourist sites into sustainable and responsibly managed destinations: A case study of the 2021 Geldingadalur eruption in Iceland
Stephanie Langridge, MS-gráða í stjórnun í ferðaþjónustu, viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík
Leiðbeinandi: Tracy Michaud