Markhópagreining fyrir íslenska ferðaþjónustu

Nýlokið er rannsóknarverkefninu Markhópagreining fyrir íslenska ferðaþjónustu sem RMF vann ásamt Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri, í samstarfi við Íslandsstofu og Ferðamálastofu.

Verkefnið fólst í hönnun, rýni og forprófun spurningalista fyrir erlend markaðssvæði Íslands. Spurningarnar eru hannaðar með það að leiðarljósi að finna hvað einkennir mismunandi markhópa, meðal annars hvað varðar lífsstíl og lífshætti, en það er þekking sem auðvelda mun íslenskri ferðaþjónustu til markvissrar markaðssetningar. 

Rannsóknarverkefnið var styrkt af atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti. Það fólst annars vegar í söfnun heimilda, smíði spurninga og rýni þeirra og lauk þeim hluta í árslok 2015 með útgáfu RMF á áfangaskýrslu sem lesa má hér.

Seinni hluti verkefnisins, sem nú er nýlokið, var forprófun spurningalistans á tveimur markaðssvæðum Íslands erlendis. Háskólinn á Bifröst hefur nú gefið út síðari áfangaskýrslu verkefnisins og má lesa hana hér

Stjórnstöð ferðamála hefur veitt styrk til áframhalds á verkefninu sem felast mun í fyrirlögn spurningalistans á sjö markaðssvæðum erlendis.