Ný skýrsla um samspil ferðaþjónustu og þéttbýlis á norðurslóðum

Út er komin skýrsla um samspil ferðaþjónustu og þéttbýlis á norðurslóðum. Skýrslan er önnur í röðinni á vegum verkefnisins Partnership for Sustainability: Arctic Tourism in Times of Change (styrkt af Nordic Council of Ministers Arctic Co-operation Programme 2018–2020) en áður kom út sambærileg skýrsla um árstíðarsveiflu ferðaþjónustu á norðurslóðum.

Á undanförnum árum hefur ferðaþjónusta vaxið mjög á norðurslóðum Evrópu og Norður Ameríku í takt við meiri áhuga fólks á að upplifa einstaka náttúru og menningu norðurslóða. Margir samverkandi þættir skýra þessa þróun en loftslagsbreytingar og það sem kalla má „norðurslóðavæðingu“ atvinnugreinarinnar skipta ekki síst máli við mótun ímyndar svæðisins meðal neytenda og hagsmunaaðila ferðaþjónustu. Í þessu samhengi hafa borgir og þéttbýli hlotið fremur litla athygli fræðimanna jafnt sem stefnumótandi aðila. Mest áhersla hefur verið lögð á afskekkta áfangastaði sem falla betur að hugmyndum um hinar framandi og sérstöku norðurslóðir eins og þær eru settar fram í markaðsefni ferðaþjónustu.

Skýrslan byggir á vinnustofu sem haldin var á vegum Þemanets Háskóla Norðurslóða um ferðaþjónustu í Umeå, Svíþjóð í október 2019. Hún fjallar um dæmi frá ýmsum stöðum á norðurslóðum, Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Íslandi og Kanada sem draga fram fjölbreytni í samspili þéttbýlis og ferðaþjónustu og atriði sem skipta máli fyrir sjálfbæra þróun ferðaþjónustu á þessum svæðum. Skýrslan dregur fram margar víddir í tengslum ferðaþjónustu og þéttbýlis á norðurslóðum svosem hvernig þéttbýli þjónar bæði sem miðpunktar þjónustu og afþreyingar fyrir íbúa sem og áfangastaðir fyrir ferðamenn sem vilja upplifa hefðbundnar ferðavörur norðurslóða, eins og norðurljós. Ferðaþjónusta hefur ekki alltaf þróast í takti við staðbundna menningu þéttbýlisstaða en sumstaðar styður hún við samfélag og menningu heimamanna. Ferðaþjónusta er ennfremur notuð í vaxandi mæli til að styrkja eða skapa ímynd þéttbýlisstaða í harðnandi samkeppni um fjármagn, fyrirtæki og fólk. Í þessu samhengi hafa norðurslóðir eða hið arktíska jákvæða merkingu og er notað til að styrkja afmörkun staða í samspili ferðaþjónustu og þéttbýlis.

 

Skýrsla:

Dieter K. Müller, Doris A. Carson, Suzanne de la Barre, Brynhild Granås, Gunnar Thór Jóhannesson, Gyrid Øyen, Outi Rantala, Jarkko Saarinen, Tarja Salmela, Kaarina Tervo-Kankare, Johannes Welling
ISBN 978-92-893-6695-3 (PDF)
ISBN 978-92-893-6696-0 (ONLINE)
Aðgengileg: http://dx.doi.org/10.6027/temanord2020-529

TemaNord 2020:529
ISSN 0908-6692

© Nordic Council of Ministers 2020