Ráðstefna Ferðamálastofu um þolmarkarannsóknir

Af vef Ferðamálastofu
Af vef Ferðamálastofu

Ferðamálastofa boðar til ráðstefnu þar sem kynntar verða niðurstöður þolmarkarannsókna og tengdra verkefna á morgun, miðvikudaginn 25. maí.

Á vef Ferðamálastofu kemur fram að hvati rannsóknanna sé gríðarleg aukning erlendra gesta til landsins á undanförnum árum og fengust rannsakendur við að skoða þolmörk heimamanna, ferðamanna og náttúru.

Framkvæmdar voru viðhorfskannanir, annars vegar meðal Íslendinga um viðhorf þeirra til ferðafólks og ferðaþjónustu auk þess sem könnuð voru þolmörk ferðamanna á átta fjölsóttum viðkomustöðum ferðamanna á Suður- og Vesturlandi. Jafnframt var fjöldi ferðamanna á vinsælum ferðamannastöðum metinn út frá þolmörkum landsins og nýjar aðferðir skoðaðar til talningar heimsókna innlendra sem erlendra ferðamanna á fjölmörgum viðkomustöðum víða um land.

Meðal rannsókna sem kynntar verða er úttekt á samfélagslegum þolmörkum og viðhorfum heimafólks til ferðaþjónustu. Niðurstöðurnar kynna Dr. Edward H. Huijbens sérfræðingur á RMF og Dr. Guðrún Helgadóttir prófessor við Háskólann á Hólum.

Ráðstefnan fer fram á Grand Hótel Reykjavík og stendur frá kl. 13-16. Skráning fer fram á vef Ferðamálastofu en ekki verður innheimt þátttökugjald. Þá verður ráðstefnan aðgengileg um netútsendingu.