Spennandi hringborð um ferðamál

Rannsóknamiðstöð ferðamála stendur fyrir hringborðsumræðum um ferðamál á Fundi fólksins laugardaginn 3. sept. kl. 13-14. Yfirskrift umræðnanna sem fara fram í Norræna húsinu er Við og gestir okkar: ávinningur, ábyrgð og áskoranir.

Umræðustjóri verður Sigrún Björk Jakobsdóttir, hótelstjóri en þátttakendur í hringborðinu koma úr ólíkum áttum og hafa án efa margt spennandi fram að færa í þessa áhugaverðu og tímabæru umræðu. Einnig verður lagt upp úr því að gefa gestum í sal tækifæri til þess að leggja orð í belg.

 

Gestir RMF við hringborðið verða:

Áshildur Bragadóttir er forstöðumaður Höfuðborgarstofu sem sér um að kynna Reykjavík og höfuðborgarsvæðið allt sem áfangastað gagnvart erlendum ferðamönnum, skipuleggur stærstu hátíðir í borginni og rekur Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Aðalstræti. Áshildur er með MSc í Stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Ískands og BA gráðu í Stjórnmálafræði frá sana skóla. Áshildur var áður framkvæmdastjóri Markaðsstofu Kópavogs og hefur áratuga reynslu af markaðs- og kynningarmálum á alþjóða vettvangi og innanlands. Hún hefur auk þess verið í fyrirtækjarekstri og starfað við stjórnendaráðgjöf og háskólakennslu.

Benóný Ægisson er rithöfundur, tónlistarmaður, viðburðastjórnandi, blaðamaður, vefsmiður og sitthvað fleira smálegt. Hann ólst upp í Vogunum en hefur búið og starfað meirihluta ævinnar í miðbænum og síðustu 32 árin á Skólavörðustígnum. Benóný er formaður Íbúasamtaka Miðborgar, skrifar í hverfisblaðið Miðborg og Hlíðar, situr í húsráði Spennistöðvarinnar, félags og menningarmiðtöðvar miðborgarinnar og er æviráðinn trommuleikari á vorhátíð Austurbæjarskóla.

Björg Árnadóttir er myndlistarkennari og blaðamaður að mennt með meistaragráðu í menntavísindum. Hún hefur starfað við blaðamennsku og kennslu hér og þar um heiminn og sinnt stjórnunarstörfum í fullorðinsfræðslu víða um land. Síðustu árin hefur Björg verið sjálfstætt starfandi við kennslu, skriftir og verkefnastjórnun í ReykjavíkurAkademíunni en unnið við ferðaþjónustu í Mývatnssveit á sumrin, einkum upplýsingagjöf. Björg gaf í fyrra út bókina LAKE MÝVATN people and places.

Guðbrandur Benediktsson er safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur, en undir því eru Árbæjarsafn, Ljósmyndasafn Reykavíkur, Landanámssýningi í Aðalstræti, Sjóminjasafnið í Reykjavík og Viðey. Guðbrandur er með MA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MA-próf í safnafræði frá Gautaborgarháskóla, þar sem hann vann lokaverkefni sem fjallaði um samband safna og ferðaþjónustu. Hann hefur starfað á söfnum frá árinu 1997, en einnig sinnt kennslu, m.a. í sagnfræði, safnafræði, hagnýtri menningarmiðlun og ferðamálafræði við Háskóla Íslands. 

Þórður Snær Júlíusson er ritstjóri Kjarnans og hefur gegnt því starfi frá árinu 2013. Hann er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og með mastersgráðu í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá University of Edinburgh. Þórður Snær hefur starfað í fjölmiðlum í rúman áratug og á þeim tíma starfað hjá Morgunblaðinu, Viðskiptablaðinu, 24 Stundum og verið viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins.

Umræðustjórinn, Sigrún Björk Jakobsdóttir, er hótelstjóri Icelandair hótelsins á Akureyri sem opnaði árið 2011. Hún var jafnframt stjórnarmaður í Samtökum ferðaþjónustunnar frá 2015-2016. Sigrún er menntaður hótelrekstrarfræðingur og hefur starfað í ferðaþjónustu um árabil. Sigrún Björk var bæjarfulltrúi á Akureyri í átta ár og gengdi starfi bæjarstjóra þar í rúmlega tvö ár.