RMF vinnur rannsókn um aðlögunarhæfni og seiglu í ferðaþjónustu

Ferðamálastofa hefur ákveðið að semja við Rannsóknamiðstöð ferðamála til þess að greina aðlögunarhæfni og seiglu í ferðaþjónustu.

Ferðamálastofa óskaði á haustmánuðum eftir umsóknum í fyrsta áfanga rannsóknarverkefnis um aðlögunarhæfni og seiglu í ferðaþjónustu. Fimm umsóknir bárust og ákvað Ferðamálastofa að semja við Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) um þennan áfanga. Fyrsti áfanginn snýr að því að varpa ljósi á áhrif þess samdráttar sem fylgir Covid-19 veirunni á ferðaþjónustuna og viðbrögð greinarinnar við þeim samdrætti.

Að baki umsóknar RMF er reynslumikill hópur rannsakenda með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu. Koma þeir frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Hólum og RMF. Hlutverk þessa rannsóknarhóps er að veita faglega leiðsögn við framkvæmd verkefnisins en RMF sér um framkvæmd og utanumhald rannsóknarinnar.