Starfsnemi hjá RMF

Næstu vikurnar verður Julie Madsen í starfsnámi á skrifstofu RMF á Akureyri. Julie er meistaranemi í sjálfbærri ferðaþjónustu, fjölþjóðlegum hreyfanleika og samfélögum við Álaborgarháskóla í Danmörku og var skiptinemi við Háskólann á Akureyri haustið 2021. Julie kom í febrúar og mun starfa hjá okkur fram í maí.

Rannsóknaráhugi Julie beinist að margbreytileika og hugmyndafræði sjálfbærrar ferðaþjónustu, þróun ferðaþjónustu í dreifbýli, stefnum og straumum í ferðaþjónustu og seiglu á krísutímum.

Í starfsnáminu vinnur Julie að rannsókn fyrir meistaraverkefni sitt sem fjallar um hugmyndir ferðaþjónustuaðila á Akureyri um framtíðarsviðsmyndir ferðaþjónustu. Nýverið tók hún viðtöl við einstaklinga sem starfa innan ferðaþjónustunnar á Akureyri en gagnaöflunin veitir innsýn í hugmyndir þeirra um endurræsingu og endurskipulagningu ferðaþjónustunnar í bænum eftir heimsfaraldur.

RMF býður Julie velkomna til starfa á Akureyri!