Verðlaun fyrir lokaverkefni um ferðamál fyrir skólaárið 2013

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) með fulltingi og stuðningi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) hefur nú í níunda sinn veitt 100.000 króna verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin voru afhent á ársfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) 2014, fimmtudaginn 10. apríl á Grand hótel Reykjavík. Forstöðumaður RMF afhenti verðlaunin og lýsti jafnframt þeim örðum verkefnum sem til greina komu.

Verkefni sem til greina komu voru tilnefnd af kennurum þeirra þriggja opinberu skóla sem sinna kennslu og rannsóknum í ferðamálum, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Hólaskóla. Þau gátu verið lokaverkefni úr grunnnámi eða framhaldsstigi.

 

Niðurstaða dómnefndar var að verðlaunin í ár hljóti ritgerð Paavo Olavi Sonninen sem fjallar um hæfni leiðsögumanna og þjálfunarþörf þegar kemur að ævintýraferðum. Um er að ræða meistararitgerð frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands en Árný Elíasdóttir og Gylfi Dalmann Aðalsteinsson voru leiðbeinendur.

Í umsögn dómnefndar segir:

Í verkefni sínu fjallar Paavo um vænta og greinda hæfni starfsfólks sem þjónustar og leiðsegir ferðafólki í ævintýraferðum á vegum fyrirtækja sem starfa saman undir hatti Arctic Adventures. Tilgangurinn var að meta hvort þörf væri á bættri þjálfun meðal  leiðsögumanna fyrirtækisins, og hvort breytt löggjöf muni í framtíðinni skapa þjálfunarþarfir hjá fyrirtækinu.

Niðurstöðurnar sýndu mikla hæfni meðal leiðsögumanna, en þó er ljós þörf fyrir aukna  þekkingu og hæfni á nokkrum sviðum, s.s. skyndihjálp, getu til að starfa sjálfstætt og tungumálahæfni. Einnig skorti á þekkingu starfsfólks á íslenskri ferðaþjónustu, lipurleik og næmi í þjónustuviðmóti og samskiptum við kúnna og þekkingu á umhverfismálum. Þessu tengt var starfsfólki ekki í lófa lagið að eiga við tækjabúnað af öryggi, né horfa á ferðina frá sjónarhóli gesta. Þó hér sé dregin upp nokkuð dökk mynd af íslenskum ferðaþjónum verður að hafa í huga að oft var um lítinn mun á væntri og raunverulegri hæfni að ræða. Engu að síður bendir þetta til, líkt og Paavo dregur fram, að þörfin fyrir sérmenntun innan íslenskrar ferðaþjónustu vex. Bæta þarf samvinnu innan greinarinnar og betri samskipti þarf milli stjórnvalda og  ferðaþjónustufyrirtækja. Núverandi  viðmið  í þeirri löggjöf sem gildir um ferðamál þykja ekki hæfa og skortir dýpt að mati Paavo.  

Dómnefndin telur að þetta verkefni sé mikilvægt innlegg í umræðu um fagmennsku og öryggismál í íslenskri ferðaþjónustu. Báðir þættir þurfa að standa traustum fótum í menntun, sem horfa þarf til að samræma að gæðum og innihaldi. Slík samræming kemur til frá löggjafanum. Ef gerðar eru skilgreindar kröfur til þeirra sem þjónusta ferðafólk hér á landi í reglum um starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja, er auðveldara að skilgreina hæfniviðmið menntunar í faginu. Þannig þarf samræmt átak ferðaþjónustu í samvinnu við stjórnvöld til að efla og bæta menntaumhverfi ferðaþjónustu og gera fagmennsku hátt undir höfði. Ritgerð Paavo ætti að geta nýst vel í þá vinnu enda í henni skilgreint ferli uppbyggingar hæfni innan fyrirtækja og hvernig hægt er að leggja mat á árangur þess.   

Verkefni Paavo er ítarlegt, vel upp byggt og vandað. Fræðileg rýni er unnin samviskusamlega og af metnaði og fagmennsku og greining rannsóknargagna er vönduð. Vinna hans ætti að verða öðrum til eftirbreytni og hún er verðugur handhafi lokaverkefnisverðlauna Rannsóknamiðstöðvar ferðamála árið 2013.

Ritgerðina er hægt að skoða á Landsbóksafni eða gegnum Skemmuna (skemman.is), hér: http://hdl.handle.net/1946/16486


Rannsóknamiðstöð ferðamála er starfrækt af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum að Hólum, Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu. Markmið miðstöðvarinnar eru að efla rannsóknir á sviði ferðamála, styrkja tengsl háskólastarfs og atvinnulífs og auka þekkingu um ferðamál gegnum innlent og erlent samstarf.