Vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu staðfestur í ferðaþjónustureikningum

Ferðaþjónustureikningarnir (e. Tourism Satellite Accounts, TSA) fyrir árin 2009-2013 voru nýlega birtir á vef Hagstofu Íslands en þeir voru unnir í samvinnu við Rannsóknamiðstöð ferðamála með fjármagni frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Þar kemur fram að neysla erlendra ferðamanna hefur aukist úr 92,3 milljörðum króna árið 2009 í 165,1 milljarða árið 2013. Á sama tíma hefur neysla íslenskra ferðamanna á innanlandsmarkaði sömuleiðis aukist úr 59,6 milljörðum í 87,8 milljarða (sjá töflu hér fyrir neðan).

Neysla í ferðaþjónustu á Íslandi 2009-2013 á verðlagi hvers árs (milljarðar króna)

 

2009

2010

2011

2012

2013

Neysla erlendra ferðamanna

92,3

90,1

115,1

136,8

165,1

Neysla innlendra ferðamanna

59,6

66,7

73,6

86,5

87,8

Önnur neysla í ferðaþjónustu*

15,8

17,2

19,7

21,7

23,0

Neysla í ferðaþjónustu

167,7

174,0

208,4

245,0

275,9

*Tilreiknuð leiga á sumarhúsum og kostnaður atvinnurekenda vegna viðskiptaferða starfsfólks

 

Ferðaþjónustureikningarnir staðfesta þar með þann vöxt sem hefur átt sér stað í íslenskri ferðaþjónustu á undanförnum árum. „Þessar niðurstöður sýna skýrt og greinilega fram á mikilvægi íslenskrar ferðaþjónustu í efnahagslegum skilningi með tilliti til neyslu bæði erlendra og íslenskra ferðamanna“, segir Dr. Cristi Frenţ, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála, sem hefur staðið að verkefninu fyrir hönd RMF síðastliðin tvö ár.

Ferðaþjónustureikningarnir staðfesta jafnframt að þrátt fyrir að hlutur erlendra ferðamanna hafi vaxið umtalsvert ef litið er til heildarneyslu í ferðaþjónustu á tímabilinu (úr 52% árið 2010 í 60% árið 2013) þá skiptir neysla innlendra ferðamanna einnig miklu máli. „Það sem ferðaþjónustureikningarnir sýna er að jafnvel þó að íslensk ferðaþjónusta reiði sig mikið á erlenda gesti er innlendi markaðurinn engu að síður mikilvægur og hlutur hans vex hægt og rólega“, segir Cristi og heldur áfram: „Við skulum ekki gleyma því að Íslendingar eru einnig ferðamenn hér á landi og þegar þeir ferðast til útlanda notast þeir einnig við íslensk flugfélög. Allt þetta hefur þýðingu fyrir neysluna í ferðaþjónustu“. Neysla innlendra ferðamanna nær til þess kostnaðar sem Íslendingar leggja út fyrir á ferðum þeirra innanlands og að hluta til kostnaðar þeirra við utanlandsferðir (s.s. flugmiðar hjá íslenskum flugfélögum).

Ferðaþjónustureikningar eru alþjóðlega viðurkennd aðferð sem snýst um mælingar á efnahagslegu vægi ferðaþjónustu. Þær niðurstöður, sem eru birtar hér og á vef Hagstofunnar eru einungis fyrstu niðurstöður en frekari niðurstaðna fyrir árin 2009-2013 er að vænta síðar á þessu ári. Rétt er að taka fram að fyrri ferðaþjónustureikningar, sem Hagstofan birti fram til ársins 2011, ætti ekki að nota til samanburðar við þá sem hér birtast vegna breyttrar aðferðafræði sem byggir á nýrri og nákvæmari gögnum en áður.

 

Frétt Hagstofunnar um ferðaþjónustureikninga 2009-2013

Talnaefni Hagstofu um ferðaþjónustu