Aðalfundur RMF haldinn í Reykjavík

Aðalfundur RMF var haldinn þann 19. ágúst í Grósku – hugmyndahúsi í Vatnsmýri. Fundurinn var með hefðbundnu sniði. Nýr formaður stjórnar RMF, Ásta Dís Óladóttir, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, ávarpaði fundinn. Ásta Dís tók við formennsku af Guðrúnu Pétursdóttur sem lét af störfum um síðustu áramót.

Ársskýrsla RMF 2020 var kynnt á fundinum en hana má finna hér á vefnum.

Eftir fundinn undirrituðu Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, endurnýjaðan samning milli skólanna um RMF en samningurinn gildir til næstu tveggja ára.

Stjórn RMF fékk til sín góða gesti bæði fyrir og eftir aðalfundinn. Anna Dóra Sæþórsdóttir deildarforseti líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands kynnti nám í ferðamálafræði og rannsóknaráherslur starfsfólks. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans kynnti starfsemi klasans. Sumarliði Ísleifsson lektor við Háskóla Íslands kynnti nám í hagnýtri menningarmiðlun og stafrænni miðlun og nýsköpun og Arndís Bergsdóttir, nýdoktor í ROCS verkefni og verkefnisstýra ROCS á Íslandi ræddi um gildi þverfaglegra rannsókna.

Auk stjórnar sátu fundinn Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands og sérfræðingur á skrifstofu rektors Háskóla Íslands, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðukona RMF, Eyrún Jenný Bjarnadóttir, Vera Vilhjálmsdóttir og Íris Hrund Halldórsdóttir, sérfræðingar RMF.