Kristján Alex hlýtur verðlaun fyrir lokaverkefni til BS-prófs í ferðamálafræði

Bjarnheiður Hallsdóttir formaður SAF, Kristján Alex Kristjánsson og María Guðmundsdóttir fræðslustjó…
Bjarnheiður Hallsdóttir formaður SAF, Kristján Alex Kristjánsson og María Guðmundsdóttir fræðslustjóri SAF
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veita árlega verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni sem fjallar um ferðamál á Íslandi. Verðlaunin voru veitt í 14. sinn á aðalfundi SAF á Húsavík í dag.
Í ár hlýtur Kristján Alex Kristjánsson ferðamálafræðingur verðlaunin fyrir BS-ritgerð sína í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, sem ber heitið „Myndræn menning og landslag: Tækifæri sýndar- og viðbótarveruleika til að skapa upplifun fyrir ferðamenn“. Leiðbeinandi Kristjáns Alex var dr. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.
Viðfangsefni ritgerðarinnar eru möguleikar sýndar- og viðbótarveruleika í ferðaþjónustu framtíðarinnar á Íslandi. Kristján Alex kannaði hlutverk tækniframfara í þróun ferðaþjónustu í sögulegu samhengi og velti því upp hvernig þróun upplýsinga- og samskiptatækni muni hafa áhrif á stýringu og uppbyggingu áfangastaða og á mótun greinarinnar í framtíðinni. Auk þess kannaði hann hvort ferðamenn séu tilbúnir fyrir upplifanir í sýndarheimi um leið og þeir leitist eftir upplifunum sem hafi sanngildi og skerpi tengsl þeirra við veruleikann. Kristján Alex tók viðtöl við einstaklinga sem hafa unnið með sýndar- og viðbótarveruleika á Íslandi og komst að þeirri niðurstöðu að tækifæri séu þegar til staðar fyrir notkun þessarar tækni í íslenskri ferðaþjónustu, en að skortur á fjármagni, þekkingu og mannauði haldi hins vegar aftur af frekari þróun hennar. Einnig sýna niðurstöðurnar að best sé að nota upplifanir í sýndarheimi sem viðbót við hefðbundna ferðamennsku.
 
Í umsögn dómnefndar segir:
Nálgun Kristjáns Alex á tengslum tækniframfara og ferðamennsku framtíðarinnar er bæði nýstárleg og áhugaverð. Kristján Alex fetar ótroðnar slóðir í rannsóknum innan ferðamennsku á Íslandi og tekst honum vel upp með að sýna annars vegar fram á þörf fyrir frekari rannsóknir á þessu sviði og hins vegar fram á nýja möguleika í vöruþróun sem geti verið íslenskri ferðaþjónustu til framdráttar.
 
Að þessu sinni voru sjö framúrskarandi lokaverkefni úr grunnnámi til BS-gráðu eða BA-gráðu við háskóla hér á landi tilnefnd til lokaverkefnisverðlaunanna. Dómnefnd hafði úr vöndu að velja því öll verkefnin voru vel unnin og tóku á mikilvægum og nýstárlegum viðfangsefnum um ferðamál á Íslandi. Má þar nefna tengsl ábyrgrar ferðaþjónustu og samfélagsábyrgðar ferðaþjónustufyrirtækja, þróun og áherslubreytingar markaðsherferðarinnar Inspired by Iceland, birtingarmynd íslenskra kvenna í markaðsefni ferðaþjónustu og áhrif ferðamennsku á lífsgæði heimamanna. Allt eru þetta mikilvæg og brýn rannsóknarefni fyrir íslenska ferðaþjónustu í dag og því vill dómnefnd hvetja alla tilnefnda höfunda til frekari rannsókna á sínum sviðum.
 
Dómnefnd Lokaverkefnisverðlauna SAF og RMF skipuðu þær Rósbjörg Jónsdóttir sérfræðingur, fulltrúi SAF, dr. Rannveig Ólafsdóttir, fulltrúi stjórnar RMF og Eyrún Jenný Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá RMF.
 
Tilnefnd lokaverkefni úr grunnámi eru (í stafrófsröð):

Brynja Eiríksdóttir og Ragnheiður Mjöll Baldursdóttir: Hér er allt í lagi! Hvernig hafa áherslur þróast í markaðsátakinu Inspired by Iceland?
Ferðamálafræði, Háskólinn á Hólum
Leiðbeinandi: Ingibjörg Sigurðardóttir

Heiðrún Harðardóttir: Áhrif aukningu í ferðaþjónustu á húsnæðismarkaðinn á Íslandi
Ferðamálafræði, Háskólinn á Hólum
Leiðbeinandi: Ingibjörg Sigurðardóttir

Katla Eiríksdóttir og Steinþóra Sif Heimisdóttir: „Jöklarnir verða ekki hér að eilífu”: Samfélagsábyrgð fyrirtækja í takt við ábyrga ferðamennsku
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Edda Ruth Hlín Waage og Ásdís Aðalbjörg Arnalds

Kristín Jezorski: Eðlishyggja og kvenímyndin: Birtingarmynd íslenskra kvenna í nýstárlegu markaðsefni ferðaþjónustu
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Katrín Anna Lund

Kristján Alex Kristjánsson: Myndræn menning og landslag: Tækifæri sýndar- og viðbótarveruleika til að skapa upplifun fyrir ferðamenn
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Gunnar Þór Jóhannesson

Lena Hulda Nílsen og Rakel Sesselja Hostert: Það gerast nefnilega ljótir hlutir á fallegum stöðum: Myrk saga Þingvalla sem tækifæri í ferðaþjónustu
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Katrín Anna Lund 

Sigrún Elfa Bjarnadóttir: Ferðamönnum virðist allt leyfilegt: Áhrif ferðamennsku á lífsgæði heimamanna í Öræfum
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinandi: Edda Ruth Hlín Waage