Staðsetning og þjónustuframboð ráða mestu í staðbundinni neyslu erlendra ferðamanna

Erlendir sumarferðamenn á Íslandi er fólk í fríi á ferð með fjölskyldu og vinum og þá helst á bílaleigubíl. Ferðahegðun þeirra og útgjaldamynstur er þó breytilegt eftir heimsóknarsvæðum þar sem staðsetning og þjónustuframboð staðanna eru mjög ráðandi þættir.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í svæðisbundnum könnunum meðal erlendra ferðamanna sumarið 2019 en niðurstöðuskýrslur fyrir hvern stað voru gefnar út í dag. RMF vann könnunina fyrir Ferðamálastofu.

Staðbundnar kannanir á ferðahegðun og neyslu erlendra ferðamanna hérlendis hafa frá árinu 2013 verið framkvæmdar á alls 14 stöðum víðsvegar um land.

Í ár var könnun lögð fyrir á fjórum stöðum: á Akureyri, í Borgarnesi, á Höfn og í Mývatnssveit.

Ánægja með heimsókn reyndist alls staðar mikil, var hæst 99% á Akureyri og lægst 94% á Höfn. Á öllum stöðum komu fram fjölmargar jákvæðar athugasemdir um náttúrufegurð og fegurð staðanna.
Töluverður breytileiki kom hins vegar fram á meðmælaskori. Í Mývatnssveit (+79) og á Akureyri (+78) var skorið vel yfir +75 viðmiðum sem sett voru í Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Meðmælaskorið var nokkuð lægra í Borgarnesi (+62) en umtalsvert lægst á Höfn (+30). Í Borgarnesi og á Höfn var það lítið framboð afþreyingar sem helst kom í veg fyrir meðmæli auk þess sem skortur á gistiframboði, hátt verðlag gistingar og lélegt ástand tjaldsvæðis drógu úr því að menn teldu sig geta mælt með Höfn sem áfangastað.

Ólík ferðahegðun endurspeglast í útgjöldum ferðamanna. Meðalútgjöld erlendra ferðamanna á sólarhring voru tvöfalt hærri á Akureyri (15.816 kr.) og í Mývatnssveit (15.174 kr.) heldur en í Borgarnesi (7.309 kr.) og útgjöld á Höfn (10.603 kr.) voru þar á milli. Þeir þættir sem mestu réðu varðandi útgjöld voru gisting og afþreying. Dvalartími erlendra ferðamanna var stystur í Borgarnesi (9,2 klst.) en lengst dvöldu menn á Akureyri (24,6 klst.). Enginn þessara fjögurra staða reyndist hins vegar hafa verið helsta ástæða Íslandsferðar.

Á Akureyri stóðu upp úr heimsóknir í Lystigarð, Akureyrarkirkju og veitinga- og kaffihús bæjarins. Í Mývatnssveit nutu göngutúrar, Jarðböðin og útsýnisferðir mestra vinsælda. Á Höfn var það afslöppun og veitingahúsaferðir en í Borgarnesi verslun, safnferðir og tækifæri til að rétta úr sér. Þessar niðurstöður eru vel í takt við helsta tilgang heimsókna erlendra ferðamanna til þessara staða

Niðurstöðuskýrslur fyrir hvern stað má skoða hér:
 - Akureyri
 - Borgarnes 
 - Höfn
 - Mývatnssveit

 

Fréttatilkynningu Ferðamálastofu um útgáfuna má lesa hér.

 

Hér má lesa nánar um verkefnið og finna tengla á niðurstöður kannana fyrri ára.