Aðalfundur RMF haldinn í Reykjavík

Gunnar Þór Jóhannesson á fundi stjórnar RMF
Gunnar Þór Jóhannesson á fundi stjórnar RMF

Aðalfundur RMF fór fram þriðjudaginn 3. september í Háskóla Íslands. Fyrir fundinn heimsóttu stjórn og starfsfólk Jón Atla Benediktsson rektor HÍ og Ingibjörgu Gunnarsdóttur aðstoðarrektor vísinda og ræddu við þau um hlutverk RMF og háskólanna í þróun og rannsóknum í ferðamálum.

Að heimsókn lokinni var gengið yfir í Gimli þar sem Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, hélt erindi um áskoranir, sýn og stefnu markaðsstofunnar í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, fylgdi á eftir með umfjöllun um framtíð rannsókna í ferðamálafræði og samstarf háskólanna og RMF.

Á aðalfundinum kynnti Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður RMF ársskýrslu 2023   og starfsáætlun ársins 2024. Harpa Halldórsdóttir sérfræðingur fjármálagreininga hjá HA kynnti ársreikning RMF 2023. Auk stjórnar og forstöðumanns sátu Eyrún Jenný Bjarnadóttir og Vera Vilhjálmsdóttir sérfræðingar RMF fundinn.

Tvær breytingar urðu í stjórn. Samtök ferðaþjónustunnar hafa tilnefnt Unni Svavarsdóttur eiganda og framkvæmdastjóra GoNorth í stjórn. Þá tók Heiðrún Erika Guðmundsdóttir forstöðumaður rannsókna og þekkingar hjá Ferðamálastofu sæti í stjórn fyrir Ferðamálastofu. Tekur hún við af Oddnýju Þóru Óladóttur sem hefur setið í stjórn RMF fyrir hönd Ferðamálastofu frá árinu 2010, lengst allra í sögu RMF. Stjórn og starfsfólk þakkar Oddnýju fyrir vel unnin störf og ánægjulegt samstarf.  

Eftir fundinn sátu stjórn og starfsfólk málþing Ferðamálastofu og RMF þar sem Eyrún Jenný Bjarnadóttir sérfræðingur RMF kynnti helstu niðurstöður rannsóknar á viðhorfum Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu. Nánar má lesa um málþingið og nálgast upptöku frá því í frétt Ferðamálastofu