Fréttir 2008

Desember

Jólabókin í ár

Rannsóknamiðstöð ferðamála ásamt kennaradeild háskólans í Jyväskylä hefur gefið út bókina The Illuminating Traveler - Expressions of the Ineffability of the Sublime. Í henni eru 15 greinar um ferðamál og fyrirbærafræði en titill bókarinnar gæti útlagst:„Hinn upplýsandi ferðalangur - birting tjáningar þess sem ekki verður tjáð“. Greinarnar fjalla um ferðalög um áfangastaði víða um heim þar sem höfundar lýsa upplifunum á oft ljóðræðan hátt. Í henni er ein grein um Ísland, nánar tiltekið Goðafoss og hvernig ferðalangar upplifa hann.

Rannsóknamiðstöð ferðamála veitir nánari upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast bókina edward@unak.is

Mynd af kápu

 

Nóvember

 Málþing á Höfn Í Hornafirði

Málþing var haldið á Höfn í Hornafirði um atvinnulíf og nýsköpun við lendur Vatnajökulsþjóðgarðs. Dagskrá málþingsins var einkar vegleg og má sjá hér, en samhliða var haldin uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Suðausturlandi.

Edward H. Huijbens forstöðumaður RMF flutti erindi á málþinginu um mikilvægi samræmdrar svæðisbundinnar stefnumótunar, en nú er verið að ljúka fyrstu tilraun í slíkri vinnu í Þingeyjarsýslum. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga stendur fyrir þeirri vinnu en John S. Hull, sem er við Rannsóknamiðstöð ferðamála á Nýja Sjálandi, en jafnframt gesta prófessor við RMF stýrir verkinu.

Erindi Edwards má sjá hér, en RMF stefnir að því að slík vinna fari fram um allt land í samvinnu við Atvinnuþróunarfélög og aðra hagsmunaaðila á svæðunum.

 

Október

Fundur kennara og rannsakenda í ferðamálafræðum

Fundur kennara og þeirra sem stunda rannsóknir í ferðamálafræðum var haldin 23. október sl. í Reykjavík Centrum hótel - forsetasal, kl. 18.15. Á fundinn voru 20 mættir og eftir erindi Árna Gunnarssonar, formanns SAF, spunnust nokkrar umræður um hvaða rannsóknaráherslur gætu verið í ferðamálum á Íslandi og hver ætti að leika hvaða hlutverk þar. Einnig var nokkuð fjallað um námsframboð við skólana þrjá sem að RMF standa og þá sérstaklega nýtt MTA nám sem skólarnir skipuleggja nú í samvinnu.

Dagskrá var sem hér segir: 18.15 Gestir boðnir velkomnir og stutt tala forstöðumanns Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. 18.30 Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, hélt tölu um rannsóknir í íslenskri ferðaþjónustu og hugmyndir greinarinnar. Eftir erindið svaraði hann spurningum. (Glærur hans má sjá hér) 19.15 Stutt óformleg framsaga hvers skóla um kennslu í ferðamálafræðum


Háskóli Íslands
Hólaskóli
Háskólinn á Akureyri Léttar veitingar voru í boði á fundinum 20.00 Fundarlok

Daginn eftir voru tvær málstofur um ferðamálafræði á Þjóðarspegli, árlegri félagsvísindaráðstefnu Háskóla Íslands (sjá titla erinda og hverjir fluttu, ásamt útdrætti má)

 

September 

Ferðavenjur Íslendinga innanlands

Árstíðabundnar sveiflur í eftirspurn er alþekkt vandamál innan ferðaþjónustunnar og eiga þær sér skýringar sem gjarnan tengjast breytingum á veðurfari, lýðfræðilegum og lífsstílsþáttum. Það er mikið hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuaðila að leita leiða til að jafna út þessar sveiflur, auka fjölda ferðamanna utan hinnar svokölluðu háannar og bæta þannig afkomu í ferðaþjónustunni.

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur nú sett í gang rannsóknarverkefni til að skoða hvaða leiðir sé hægt að fara til að draga úr þeim og auka þannig eftirspurn utan háannar. Í upphafi var gerð könnun á ferðavenjum Íslendinga á Norðurlandi og tekið dæmi af ferðaþjónustuaðilum á Akureyri og nágrenni sem hafa lagt áherslu á að efla ferðaþjónustu að vetri til. Í framtíðinni er gert ráð fyrir að greina hvert svæði á landinu með þessum hætti og átta sig þannig heildrænt á ferðavenjum Íslendinga innanlands, fyrst á lágönn eða einnig og samhliða á háönn.

 

Ágúst 

Meistaranám í ferðamálafræðum í undirbúning

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Hólaskóli – háskólinn á Hólum undirbúa nú sameiginlega framhaldsnám í ferðamálafræði, titlað MTA (e. Master of Tourism Administration) sem er samræmt af Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Nemendur munu geta skráð sig í gegnum alla skólana til námsins og hljóta sína prófgráðu að námi loknu frá þeim skóla sem þeir skráðu sig upprunalega. Námið er kennt í kennslulotum fimmtudaga til laugardaga, fjórum sinnum á misseri og því hugsað fyrir fólk sem vill taka það með vinnu. Inntökuskilyrði er grunngráða BA eða B.Sc. frá viðurkenndum háskóla (e. university) á Íslandi eða erlendis. Þeir sem hafa BA/B.Sc. í greinum óskyldum ferðamálafræðum er gert að þreyta 10 ECTS lesnámskeið sem er inngangur að ferðamálafræði. Þær einingar teljast til valnámskeiða. Námið er fyrir fólk sem vill öðlast sérstaka færni, getu og skerpu til fjölbreyttra starfa í ferðaþjónustu. Meistaranáminu er þannig ætlað að veita dýpri innsýn, sem nýtist til að skilja fjölbreyttan rekstur og margbrotið rekstrarumhverfi mismunandi fyrirtækja í ferðaþjónustu, en einnig til að koma að opinberri stefnumótun greinarinnar. Stefnt er að því að bjóða námið haustið 2009.

 

Júlí 

Umsóknir í sjóði Norðurslóðaáætlunar

Rannsóknamiðstöð ferðamála er þátttakandi í einu verkefni á vegum norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins (Northern Periphery Programme, NPP), sem snýr að þróun skotveiðitengdrar ferðaþjónustu á norðurslóðum, í samvinnu við Veiðimálastjórn og Rannsókna og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri.

Á grunni þeirrar reynslu vinnur miðstöðin nú að gerð tveggja forverkefnisumsókna, annarsvegar um hvernig gera má flugvelli miðlæga í svæðisbundinni markaðssetningu og hinsvegar um þróun sjó kayak ferða á norðurslóðum. Hið fyrra er í samvinnu við Flugstoðir, Ferðamálastofu og Travel logic á Írlandi. Hið síðara er í samvinnu við University of the Highlands and Islands í Skotlandi og Manchester Metropolitan University, sem og ferðaskipuleggjendur á Grænlandi.

Umsóknir um forverkefnisstyrki verða sendar í haust.

 

Júní 

Rannsókn á markaðsímynd fyrirtækja sem nota visthæfa orkugjafa

Rannsóknamiðstöð ferðamála auglýsir eftir áhugasömum nemendum til að rannsaka markaðsímynd fyrirtækja í ferðaþjónustu sem nýta visthæft eldsneyti. Um er að ræða meistaranám í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands Verkefnið mun m.a. leitast við að kanna viðhorf ferðamanna til nýtingar umhverfisvæns eldneytis og kortleggja hvort tveggja afstöðu ferðamanna og áhrif á markaðsstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu sem nýta visthæft eldsneyti. Verkefnið er samvinnuverkefni Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, land- og ferðamálafræðiskorar Háskóla Íslands og íslenskrar NýOrku. Nemandi mun hafa starfsaðstöðu á NýOrku. Fyrir hendi er fjármögnun nemanda (laun) í þrjá mánuði. Áframhaldandi fjármögnun er háð umsóknum um áframhaldandi styrki. Meistaranám í ferðamálafræði við HÍ er að öllu jöfnu tveggja ára rannsóknanám (120e) á sérhæfðu sviði ferðamálafræða að loknu BS námi sem gefur prófgráðuna magister scientiarum, MS. Námið samanstendur af sjálfstæðu rannsóknaverkefni (60e eða 90e) og námskeiðum (60e eða 30e).Frekari upplýsingar um meistaranám við land- og ferðamálafræðiskor HÍ er að finna á:

https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=skoli&chapter=content&id=11259&kennsluar=2008
Áhugasamir hafi samband við Rannveigu Ólafsdóttur í síma 5255482 eða á netfang ranny@hi.is.

 

Maí 

Þrjár nýjar skýrslu frá FMSÍ

Ferðmálasetur Íslands hefur nú í vor unnið að þremur skýrslum sem nú eru komnar út og er hægt að nálgast á vef setursins undir 'verkefni' og 'útgefið efni', en einnig er þeim dreift til bókasafna og atvinnuþróunarfélaga. Í byrjun júní mun svo  fjórða skýrslan koma út. Þessar þrjár sem komnar eru:

Hrefna Kristmannsdóttir 2008: Jarðhitaauðlindir - tækifæri til atvinnusköpunar og byggðaeflingar á Norðausturlandi með heilsutengdri ferðaþjónustu. Akureyri: Ferðamálasetur Íslands og Háskólinn á Akureyri (bls. 52). Ókeypis vefútgáfa

Rannveig Ólafsdóttir og Kristín Rut Kristjánsdóttir 2008: Áhrif uppistöðulóns og virkjunar við Hagavatn á ferðamennsku og útivist. Akureyri: Ferðamálasetur Íslands (bls. 47). Ókeypis vefútgáfa

Edward H. Huijbens 2008: Áhrif fyrirhugaðrar virkjunar á Þeistareykjum og háspennulína frá Kröflu að Bakka við Húsavík á ferðaþjónustu og útivist. Akureyri: Ferðamálasetur Íslands (bls. 73). Ókeypis vefútgáfa

 

Apríl 

Lokaverkefnisverðlaun 2007

Ferðamálasetur Íslands veitir nú í þriðja sinn 100.000 króna verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin voru afhent á Aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) 2008, fimmtudaginn 3. apríl, kl. 15.00, en fundurinn var haldin á hótel Sögu. Dómnefnd sem skipuð er stjórn og forstöðumanni FMSÍ hefur metið fimm verkefni skólaársins 2007 sem þóttu afar góð og/eða mjög athyglisverð en þau eru:

  • Ímynd Egilsstaða sem ferðamannastaðar. M.Sc. ritgerð Sturlu Más Guðmundssonar frá Viðskipta og Hagfræðideild Háskóla Íslands.
  • Römm er sú taug – getur átthagafræði (og sjálfsefling) stuðlað að sterkri byggð og uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. BA ritgerð Margrétar Björnsdóttur frá Hólaskóla – Háskólanum á Hólum.
  • Samvinna fyrirtækja í samkeppni á íslenskum ráðstefnumarkaði – Viðhorf fagaðila til sameiginlegs gagnagrunns. B.Sc. ritgerð Hildar Kristjánsdóttur frá jarð og landfræðiskor Háskóla Íslands.
  • Framleiðni í íslenskri ferðaþjónustu – stjórnun afþreyingarfyrirtækja. M.Sc. ritgerð Ingibjargar Sigurðardóttur frá Háskólanum á Bifröst.
  • Myrk ferðamennska – eins dauði er annars brauð. BA ritgerð Öldu Davíðsdóttur frá Hólaskóla – Háskólanum á Hólum.

Niðurstaða dómnefndar er að verðlaunin í ár hljóti Hildur Kristjánsdóttir fyrir B.Sc. ritgerð sína Samvinna fyrirtækja í samkeppni á íslenskum ráðstefnumarkaði – Viðhorf fagaðila til sameiginlegs gagnagrunns.

Í umsögn dómnefndar segir:

Í verkefni sínu fjallaði Hildur Kristjánsdóttir um klasa og hugmyndir um samvinnu í samkeppni, þá sérstaklega með tilliti til starfandi fyrirtækja á íslenskum ráðstefnumarkaði. Þannig leitaðist hún við að skilja sjónarmið starfandi einstaklinga á tilteknu markaði íslenskrar ferðaþjónustu til hugmynda sem hafa verið ofarlega í opinberri umræðu.
Með viðtölum komst Hildur að því hvernig forsvarmenn fyrirtækja á íslenskum ráðstefnumakaði sjá fyrir sér gagnagrunn sem nýst gæti við markaðssetningu Íslands sem ráðstefnulands af hálfu Ráðstefnuskrifstofu Íslands, sem rekin er sem sjálfstæður hluti Ferðamálastofu. Í ljós kom af forsvarmenn eru jákvæðir en hafa þó ákveðnar hugmyndir um hvernig af gagnasöfnun skuli staðið.


Helstu niðurstöður Hildar eru því að upplýsingar í gagnagrunni mega ekki vera of ítarlegar, skil á þeim mega ekki vera of tíð, þær þurfa að vera órekjanlegar og allir verða að taka þátt einnig gististaðir og þeir sem ráðstefnur hýsa. Af þessu dregur hún þá ályktun að tvímælalaus vilji sé til samstarfs sem muni þá gagnast við markaðssetningu Íslands sem ráðstefnulands en einnig til að meta umfang ráðstefnuferðamennsku á Íslandi. Leggur hún til að þessi gögn verði hýst hjá Hagstofu Íslands og þangað væri upplýsingum skilað, líkt og gert er nú með gistinætur. Þannig yrði hlutverk Ráðstefnuskrifstofu Íslands að árangursmæla og gera markaðsstarf sýnilegra.
Dómnefndin telur að þetta verkefni geti Ráðstefnuskrifstofu Íslands og fyrirtækjum á íslenskum ráðstefnumarkaði sem stefna að því að vera alþjóðlega samkeppnishæf. Þannig leggur verkefnið til hvernig þau geta bætt eigin þjónustu með samvinnu sem studd er af hinu opinbera í samræmi við það sem er efst á baugi í málefnum ferðaþjónustunnar um landið í tengslum við uppbyggingu Vaxtarsamninga.


Verkefni Hildar er unnið samviskusamlega af metnaði og fagmennsku og er hún verðugur handhafi verðlauna Ferðamálaseturs Íslands árið 2007. Ritgerðina er hægt að fá hjá Stúdentamiðlun v/ Hringbraut (www.am.is)

Lokaverkefnisverðlaun 2007

 

Mars 

Ísland og ímyndir norðursins

Annar vinnufundur við Háskólann á Akureyri, Borgum, 7.-8. mars 2008 Rannsóknarhópurinn Ísland og ímyndir norðursins, sem samanstendur af rúmlega 25 fræðimönnun frá 14 háskólum um allan heim, mun halda opin vinnufund að Borgum, Háskólanum á Akureyri, 7. og 8. mars. Þar munu tveir gestafyrirlesarar taka til máls og einstaklingar í rannsóknarhópnum kynna sín verkefni. Gestafyrirlesarinn prófessor Lutz Rühling frá háskólanum í Kiel mun fjalla um Imaginatio Borealis rannsóknarverkefnið, 7. mars kl. 14.00. Prófessor Heidi Hansson frá háskólanum í Umeå mun fjalla um Foreign North rannsóknarverkefnið, 8. mars kl. 13.00. Á eftir fyrra erindinu, og á undan og eftir því síðara munu einstaklingar úr hópnum kynna sín verk. Rannsóknarverkefnið Ísland og ímyndir norðursins hlaut öndvegisstyrk Rannís til þriggja ára árið 2007 og hefur það að markmiði að varpa ljósi á Ísland sem mikilvægan hluta af norðurslóðum, skilja fjölbreyttar ímyndir Íslands í norðrinu og hlutverk slíkra ímynda í nútímanum og rætur þeirra.

Sjá dagskrá vinnufundsins

 

Laus staða sérfræðings við FMSÍ

Sérfræðingur við Ferðamálasetur Íslands
Lektor/dósent/prófessor við Háskólann á Akureyri Ferðamálasetur Íslands og Háskólinn á Akureyri auglýsa lausa til umsóknar sameiginlega stöðu sérfræðings við Ferðamálasetur Íslands og lektors/dósents/prófessors við viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri. Umsækjandi mun hafa starfsaðstöðu við Ferðamálsetur Íslands í Háskólanum á Akureyri. Staðan skiptist til helminga milli Ferðamálaseturs og Háskólans á Akureyri. Kennsluskylda er gagnvart þeim síðarnefnda, en rannsóknarskylda gagnvart Ferðamálasetri. Um ráðningu til þriggja ára er að ræða með möguleika á fastráðningu, með þeim fyrirvara þó að fyrstu sex mánuðir skoðast sem gagnkvæmur reynslutími. Miðað er við að ráðið verði í stöðuna frá 1. ágúst 2008. Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Umsækjandi standist hæfismat sem lektor/dósent eða prófessor við Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á  Akureyri
  • Umsækjandi hafi sérþekkingu og reynslu á sviði hagfræða eða annarra fræða sem nýtast við tölfræðigreiningar og hagmælingar
  • Umsækjandi hafi gott vald á aðferðum til hagrannsókna og notkun búnaðar til tölfræðigreiningar og hagmælinga.
  • Umsækjandi hafi reynslu af öflun rannsóknaverkefna ásamt vinnu við rannsóknir
  • Umsækjandi þarf að hafa gott vald á mæltu og rituðu máli og hæfileika til að setja fram fræðilegt efni á skýran hátt.
  • Umsækjandi þarf að hafa góða skipulagshæfileika, geta unnið sjálfstætt og búa yfir góðri hæfni í mannlegum samskiptum

Dómnefnd HA mun meta fræðilega hæfni umsækjenda til að gegna starfi lektors, dósents eða prófessors. Umsókn skal fylgja greinargóð skýrsla um vísindastörf umsækjanda, rannsóknir og ritsmíðar (ritaskrá), svo og yfirlit um námsferil og störf (curriculum vitae). Með umsókn skulu send þrjú eintök af vísindalegum ritum og ritgerðum, birtum og óbirtum, sem umsækjandi óskar eftir að verði tekin til mats. Þegar höfundar eru fleiri en umsækjandi skal hann gera grein fyrir hlutdeild sinni í rannsóknum sem lýst er í ritverkum. Loks er ætlast til þess að umsækjandi láti fylgja með umsagnir um rannsókna-, kennslu- og stjórnunarstörf sín eftir því sem við á. Laun eru samkvæmt kjarasamningum Félags háskólakennara á Akureyri og fjármálaráðherra. Umsóknarfrestur er til og með 15. apríl 2008. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Umsókn getur gilt í sex mánuði.

Umsóknir skulu sendar til Ferðamálaseturs Íslands, Borgum við Norðurslóð, 600 Akureyri. Ófullnægjandi umsóknir verða ekki teknar til greina. Háskólinn á Akureyri og Ferðamálasetur Íslands áskilja sér jafnframt rétt til að hafna öllum umsóknum. Nánari upplýsingar gefur Edward Hákon Huijbens, forstöðumaður FMSÍ, í síma 460-8930 eða í netfangi: edward@unak.is.

 

Febrúar 

Stefnumótun í Þingeyjarsýslum

Hafist hefur verið handa við gerð stefnumótunaráætlunar fyrir ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Að vinnunni standa Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknarstofnun ferðamála á Nýja Sjálandi fyrir Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Stefnumótunin byggir á reynslu og vinnu sérfræðinga frá Kanada og Nýja Sjálandi. Þeir sem að verkinu vinna eru; dr. John Hull, sérfræðingur við Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknarstofnun ferðamála á Nýja Sjálandi, dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands, dr. Simon Milne, forstöðumaður Rannsóknarstofnunar ferðamála á Nýja Sjálandi og Carol Patterson ferðaþjónusturáðgjafi í Kanada og leiðbeinandi við háskólann í Calgary. Auk þeirra fjögurra koma að verkinu fjöldi stúdenta og starfsmenn stofnananna sem standa á bak við stefnumótunina. Úttekt á svæðinu í samvinnu við hagsmunaaðila
Markmið stefnumótunarinnar er að greina möguleika til uppbyggingar á ferðaþjónustu til framtíðar, út frá úttekt á því sem svæðið hefur upp á að bjóða. Úttektin, sem unnin er í samvinnu við lykil hagsmunaaðila og þá sem þekkja vel til á svæðinu er síðan er borin undir aðra hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og þarfir hennar til framtíðar greindar með þeim hætti. Allir hagsmunaaðilar munu einnig koma að vinnunni á tveggja daga námskeiði og hugarflugsfundi um stefnumótun á svæðinu sem haldinn verður í byrjun maí. Úttektin er unnin af íslenskum sérfræðingum í málefnum ferðaþjónustu í samvinnu við lykilaðila en greining og kortavinna er í höndum erlendra sérfræðinga og byggir á þeirra vinnu á ýmsum svæðum hvaðanæva úr heiminum. Í sameiningu munu síðan rannsakendur og hagsmunaaðilar vinna stefnumótun til fimm ára, en áætlað er að vinnan verði endurtekinn að þeim tíma liðnum. Kort notuð við úttekt og greiningu
Landfræðilegum upplýsingakerfum (GIS) er beitt við úttekt og greiningu á ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Gögnum um einsstaka staði, s.s. fossa, byggðaminjar, sundlaugar, veitingastaði og vegaslóða er safnað í aðgreindar þekjur sem nýtast til að átta sig á þyrpingum ólíkra möguleika til uppbyggingar í framtíðinni. Með þessari aðferð er þáttað saman nálgunum fræðimanna og hagsmunum atvinnugreinarinnar á máta sem er auðframsetjanlegur í kortum og myndum en jafnframt nýtist til frekari greininga. Sá landfræðilegi upplýsingagrunnur sem byggður verður upp í Þingeyjarsýslum mun nýtast sem fyrirmynd í sambærilega gagnaöflunar og stefnumótunarvinnu á öðrum landssvæðum og getur að lokum orðið undirstaða landnýtingaráætlunar fyrir íslenska ferðaþjónustu.

 

Borgarfjörður Eystri

Ferðamálasetrið í samvinnu við Elf tours ehf stóð fyrir málþingi um Náttúrutengda ferðaþjónustu í heilbrigðu umhverfi. Þar var reynt að leggja mat á staðbundnar auðlindir, fengnar skoðanir sérfræðinga og þekking heimamanna efld með kynningu á og niðurstöðum rannsókna Þingið var haldið á Borgarfirði eystra þann 26. -27. febrúar 2008. Um þingið:
Á þessu þingi vilja aðstandendur leiða saman þekkingu og reynslu ferðaþjónustuaðila, niðurstöður og kenningar fræðimanna og skoðanir áhugafólks á uppbyggingu ferðaþjónustu í smáum samfélögum, byggða á samfélags-, náttúru- og umhverfisgildum sjálfbærni. Útvarpsviðtal má heyra hér Staðsetning: Á Borgarfirði eystra er samfélag 140 íbúa sem lifa af því sem náttúran gefur til sjós og lands auk þjónustustarfa. Borgfirðingar hafa löngum litið á hina fögru náttúru svæðisins sem auðlind sem ber að umgangast af virðingu og nærgætni en jafnframt er hægt að nýta samfélaginu og íbúum þess til framdráttar. Markviss uppbygging innviða í ferðaþjónustu hefur átt sér stað á sviði gönguleiða, fuglaskoðunar og almennrar þjónustu en á bilinu 8.000 – 15.000 ferðamenn hafa sótt Borgarfjörð heim árlega síðastliðin 20 ár.
Með aðkomu Ferðamálaseturs og erlendra sérfræðinga viljum við fjalla um og kryfja á faglegan hátt möguleika fámennra landssvæða til lífsviðurværis af ferðaþjónustu. Ekki bara á Borgarfirði heldur á það jafnvel við önnur svipuð svæði við Norður-Atlantshaf. Einnig er mikilvægt að fá fram hvernig þjónustu og vöru einstaka staðir geta boðið uppá og á sú vara möguleika á ferðamarkaði framtíðarinnar? Með aðkomu og þekkingu fjölbreytts hóps gesta og fyrirlesara munum við auk erinda vinna í vinnuhópum og ræða viðfangsefnið útfrá mismunandi sjónarhornum. Niðurstaðan mun verða okkur veganesti inn í nýja tíma í ferðaþjónustu sem byggir á virkri vöruþróun, sérstöðu einstakra svæða og virðingu fyrir náttúru og samfélögum undir formerkjum sjálfbærni og ábyrgðar.

Dagskrá

26.febrúar þriðjudagur

09:00 Fyrir þá er koma með flugi frá Reykjavík.
09:30 Ekið áleiðis til Borgarfjarðar
11:00 Létt skoðunarferð um Bakkagerði
12:00 Hádegisverður í boði heimamanna
13.00 Setning, kynning á Borgarfirði eystra, Náttúra og ferðamenn.
13:30 Frjáls ávörp og stutt erindi

  • Fyrirlestur: Edward H. Huijbens – um rannsóknir á ferðaþjónustu og umhverfi og græni risinn
    Kynning á starfi Stefan Gössling í Vestland forskning í Noregi.
    Ferðaþjónusta sem valdur umhverfisbreytinga
    Ferðaþjónusta sem fórnarlamb umhverfisbreytinga
    Ferðaþjónusta sem lausn

15:00 Kaffi
15:30 Vinnuhópar

  • Ímynd svæða og markaðssetning (stjórn: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir)
    Hvað er sjálfbærni? (stjórn: Rannveig Ólafsdóttir)
    Hvernig tölum við saman (stjórn: Edward H. Huijbens)
    Hugmyndir og vöruþróun fyrir náttúru ferðamennsku (stjórn: Kjartan Bollason)
    Að hafa heiminn í hendi sér (stjórn: John Hull)

18.00 Vinnuhópar kynna niðurstöður
19.00 Kvöldverður
20.00 Heimsókn í álfabyggð 27. febrúar miðvikudag
08.30 Morgunverðarfundur Erindi John Hull 10.00 Vinnuhópar myndaðir á ný.
12.00 Hádegisverður
14.30 Niðurstöður, samantekt og tillögur.
15:30 Kaffiveitingar

 

Janúar 

Verkefnisstjóri við Ferðamálasetur Íslands

Ferðamálasetur Íslands auglýsir eftir verkefnisstjóra til eins árs með möguleika á fastráðningu. Um er að ræða stöðu sem sinnir verkefnum tengdum ferðamálum í Eyjafirði og uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu, en einnig að halda utan um alþjóðleg rannsóknar og samvinnu verkefni, sem og útgáfumál. 
 

Auglýsingu er að finna hér

 

FMSÍ hlýtur NPP styrk

Ferðamálasetur Íslands hlaut ásamt Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, Veiðistjórnarsviðs Umhverfisstofnunar og samstarfsaðila í Finnlandi, Svíþjóð, Skotlandi, Grænlandi og Kanada, styrk úr sjóðum Northern Periphery Programme (NPP) í desember 2007 til að þróa skotveiðitengda ferðaþjónustu á Norðurlöndum. Verkefnið hafði þegar hlotið forverkefnisstyrk og byggir núverandi úthlutun til þriggja ára á þeim árangri sem náðist með vinnu þess. 

Nánar má sjá um verkefnið og aðra íslenska styrkþega NPP hér