Fréttir 2009

Desember

Greinar um ferðamál af Þjóðarspegli

Árlega skipuleggur Rannsóknamiðstöð ferðamála málstofur um ferðamál á Þjóðarspegli, félagsvísinda ráðstefnu Háskóla Íslands. Þjóðarspegill er langstærsta ráðstefnan þar sem íslenskt  félagsvísinda fólk hittist og skiptist á rannsóknaniðurstöðum og er hún haldin á hverju hausti. Síðan árið 2007 hefur RMF haft tvær málstofur um ferðamál og þeir sem erindi flytja fá birta grein í útgefnu ráðstefnu riti undir ritstjórn Ingjalds Hannibalssonar hjá viðskipta og hagfræðideild, nú hagfræðideild og viðskiptafræðideild innan félagsvísindasviðs HÍ. RMF hefur svo haldið sérstaklega utan um greinar um ferðamál og gefið út á CD-ROM, en einnig nú á vefsvæði sem finna má á Þjóðarspegill 2009.

 

Nóvember

Nýjar skýrslur væntanlegar

Rannsóknamiðstöð ferðamála mun fyrir jól birta nýjar skýrslur er varða allt frá mati á áhrifum framkvæmda á ferðaþjónustu og útivist til tækifæra í náttúrutengdri ferðaþjónustu í pólskum þjóðgörðum. Þannig er von á skýrslu um áhrif Blöndulínu á ferðaþjónustu og útivist, sem og áhrif álversbyggingar á Bakka. Einnig er ítarleg skýrsla um ímyndir og ímyndamál í ferðaþjónustu í vinnslu, sem og skýrsla um uppbyggingu og möguleika náttúrutengdrar ferðaþjónustu í Tatra fjöllum í Póllandi. Einnig er skýrsla um brottfararkönnun sem framkvæmd var á Akureyrarflugvelli væntanleg fyrir jól, sem og drög skýrslu um stefnumótun ferðamála í Eyjafirði og um ferðafólk í orlofshúsum á Eyjafjarðarsvæðinu.

Nánari fyrirspurnum um einstakar skýrslur má beina til forstöðumanns Edward H. Huijbens, edward@unak.is

 

Október  

Ferðaþjónusta í Eyjafirði

– Vöruþróun og framtíðarsýn –

Berg - menningarhús Dalvíkur, föstudaginn 6. nóvember 2009, kl. 9.00-13.00

Rannsóknamiðstöð ferðamála í samstarfi við Ferðamálastofu, Útflutningsráð, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Atvinnumáladeild Dalvíkurbyggðar og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar boðar til vinnufundar á Dalvík um framtíðarsýn ferðaþjónustu í Eyjafirði og forsendur vöruþróunar.

Dagskrá:

     9.00:   Opnunarerindi AFE

     9.15:   Mikilvægi samræmdrar svæðisbundinnar stefnumótunar

     10.00:  Hlutverk ferðaþjónustu - Útflutningsráð

     10.30:  Hlutverk ferðaþjónustu - Ferðamálastofa

     11.00:  Næstu skref og umræður – skipun vinnuhópa undir stjórn NMI

     12.00:  Hádegisverður í boði Atvinnumálanefnd Dalvíkurbyggðar

     13.00:  Fundi slitið     

Markmið vinnufundarins er að kynna aðferðafræði vöruþróunar og stefnumótunar sem byggir á landfræðilegum upplýsingakerfum og taka fyrstu skrefin í þá átt með því að móta vinnuhópa.

Grundvöllur vöruþróunar er ítarleg úttekt á auðlindum og innviðum ferðaþjónustu í Eyjafirði í samvinnu við lykil hagsmunaaðila. Þessi úttekt snýr að náttúru- og menningargæðum í þágu ferðaþjónustu, þjónustu innviðum, samgöngum og mannauð svæða. Þörf er á að kortleggja þessa þætti í landfræðileg upplýsingakerfi, sem gerir ferðaþjónustu kleift að tjá hagsmuni sína með tækjum skipulags og landnýtingar hér á landi. Þarf að skipuleggja vinnuhópa á hverju svæði fjarðarins og safna gögnum í grunninn og þau svo notuð í röð funda við hagsmunaðila á svæðunum til að skilgreina framtíðarsýn ferðaþjónustu. Landfræðileg upplýsingakerfi gefa einnig möguleika á að leggja saman og bera saman einstök gagnasöfn og kort og eru þannig ómetanleg þegar kemur að vöruþróun, þar sem hægt er að átta sig á hvar mest aðdráttarafl og þjónusta er fyrir hendi og hvernig það er samansett, en einnig hvar vantar að skilgreina aðdráttarafl eða byggja upp þjónustu.

Fundurinn er opinn og öllum að kostnaðarlausu. Áhugasamir eru beðnir að skrá sig hjá Eyrúnu ( ejb@unak.is) fyrir föstudaginn 30. október 2009.

Dreifibréf

 

September 

Umhverfisvitund og –stjórnun. Ný skýrsla

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur í samvinnu við Efla verkfræðistofu og Háskóla Íslands gefið út skýrslu um Umhverfisvitund og umhverfisstjórnun í ferðaþjónustu, sem byggir á viðtölum við aðila í ferðaþjónustu og ferðamenn við Vatnajökulsþjóðgarð.

Umhverfisstjórnun verður stöðugt mikilvægari úti í hinum stóra heimi, og sjálfsagt eru þeir margir sem telja löngu tímabært að mannskepnan fari að umgangast móður jörð með sjálfbærni að leiðarljósi. Hlutverk umhverfisstjórnunar í ferðaþjónustu hefur að sama skapi farið vaxandi samfara auknum alþjóðlegum markmiðum um sjálfbæra ferðamennsku. Aukin umhverfisvitund ferðamanna hefur jafnframt stuðlað að auknum kröfum um bætta ímynd fyrirtækja í umhverfismálum. Síðastliðinn áratug hefur íslensk ferðaþjónusta vaxið mjög hratt samhliða vaxandi eftirspurn. Það er margt sem gefur tilefni til að ætla að vöxtur ferðaþjónustunnar aukist enn hraðar á allra næstu árum, þar sem nú er treyst á ferðamennsku sem eina af undirstöðum fjárhagslegrar endurreisnar þjóðfélagsins.

Stærsti segull Íslands sem ferðamannalands er íslensk náttúra. Til að vernda og viðhalda þessum segli er mikilvægt að íslensk ferðaþjónusta sé í takti við alþjóðleg markmið um sjálfbæra ferðamennsku. Er skýrslan framlag í þá umræðu.
Lesa skýrslu um umhverfisvitund og stjórnun

 

Ágúst

 Geo-tourism

Vöruþróun í náttúrutengdri ferðamennsku á grunni samþykktar National Geographic um jarð-ferðamennsku (ens:geotourism)

Námssmiðja á Hótel Gíg í Mývatnssveit 2. til 4. september 2009

Sjálfbærni hefur verið markmið í ferðaþjónustu á Íslandi í meira en áratug og að því marki beinast ýmis vottunarferli og stefnuyfirlýsingar sem tekin hafa verið upp af ríki og einstökum byggðarlögum. Þessi ferli hafa beinst að tilteknum atvinnurekstri, s.s. fólksflutningum, hótelstjórnun og umhverfisstefnu sveitarfélaga svo eitthvað sé nefnt. Til þessa hefur ekki verið kynnt neitt ferli sem tekur til stjórnunar á ferðamannastöðum sem byggja aðdráttarafl sitt á náttúru og leggur höfuðáherslu á varðveislu ásýndar landsins, menningarinnar og velferðar íbúanna.

Mývatn og nágrenni þess er þekkt og fjölsótt vegna fjölbreyttra náttúrufyrirbæra. Lykillinn að velgengni svæðisins sem ferðamannastaðar er náttúruvernd í uppbyggilegu gagnkvæmu sambandi við ferðaþjónustu. Til að stuðla að þessu á Norðausturlandi og landinu öllu er boðað til tveggja daga námssmiðju / workshop á vegum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Útflutningsráðs Íslands, Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála og Svartárkots fræðaseturs. Fundurinn verður á Hótel Gíg 2. til 4. september 2009 og verða þar bæði framsöguerindi og staðarheimsóknir til að efla almenna umræðu og raunhæfar aðgerðir.

Aðalfyrirlesari og stjórnandi vinnuhópa verður Dr. David Newsome, aðstoðarprófessor við Murdoch háskólann í Ástralíu og höfundur bókanna Geotourism. Sustainability, Impact, Management (Butterworth-Heinemann, 2005) og Nature Area Tourism (Channel View Publications, 2002).

Áhugasamir eru beðnir að skrá sig á vefsíðunni www.svartarkot.is fyrir 24. Ágúst 2009.

Dagskrá vinnufundar um vöruþróun í jarðferðamennsku

 

Júní 

Könnun meðal brottfararfarþega í millilandaflugi

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur sett af stað könnun meðal brottfararfarþega í millilandaflugi frá Akureyrarflugvelli í sumar. Markmið könnunarinnar er að er að kanna ferðavenjur þessara erlendu gesta okkar sem fara frá landinu í gegnum Akureyraflugvöll og kortleggja þeirra ferðamynstur um Norðurland. Könnunin hófst föstudaginn 19. júní og mun hún standa yfir fram í ágúst. Könnunin er unnin í samvinnu við Flugstoðir og viðskiptafræðideild HA í samvinnu við sveitarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu. Undirbúningur könnunarinnar fór af stað í kjölfarið á vinnufundi um millilandaflug frá Akureyri, sem fram fór samhliða árlegri ráðstefnu Háskólans á Akureyri um þjóðfélagsfræði 8. og 9. maí sl. Slík könnun hefur ekki verið gerð áður á Akureyrarflugvelli en er stöðugt haldið úti á Keflavíkurvelli frá 2004. Niðurstöður könnunarinnar munu veita veigamikið innlegg í umræðuna um millilandaflug frá Akureyri á heilsársgrundvelli.

 

Sífellt fleiri með próf í ferðamálafræðum frá Háskóla Íslands
Þekkingarþróun í ferðamálum

Sífellt fleiri vilja auka við þekkingu sína um ferðamál ef marka má nýskráningar í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Fjölgun nema í grunnámi í haust er 80% frá fyrra ári sem samsvarar því að 81 setjist á skólabekk á haustönn. Aðsóknarmet var einnig á vorönn 2009 en þá voru alls 151 nemendur skráðir í námið. Vinsældir ferðamálafræðinnar endurspegla mikilvægi ferðamála fyrir íslenskt samfélag enda greinin í vexti og sífellt fjölbreytilegri.

21 ferðamálafræðingar útskrifuðust nýverið úr Háskóla Íslands með baccaleum laureate gráðu en alls hafa 255 nemendur lokið prófi frá 2002 þegar fyrstu nemarnir útskrifuðust. Rannsóknarverkefni nemenda til lokaprófs spönnuðu víð svið, bæði í tengslum við þátt ferðamála í atvinnuþróun heima fyrir en eins málefni alþjóða ferðamála af mismunandi tagi. Meðfylgjandi listi ber fjölbreyttri flóru viðfangsefna innan ferðamálafræða vitni og sýnir hversu miklir möguleikar felast í ferðaþjónustu/málum.

Nánari upplýsingar veitir Anna Karlsdóttir ( annakar@hi.is), lektor í ferðamálafræði í síma 5254741/8995957.

Anna Björg Þórarinsdóttir Göldrum líkast? Starfsemi Strandagaldurs og áhrif á byggðarlagið
(Like Magic? Enterprise Strandagaldur and its effect on society)
Auður Hafþórsdóttir Heilsutengd ferðaþjónusta - markaðssetning og sérstaða í íslensku samhengi
(Health tourism- marketing and uniqueness in Icelandic perspective)
Ásgerður Einarsdóttir Ferðalög Frakka
(Travels of the French)
Birna Friðbjört S. Hannesdóttir Mikilvægi byggingararfs fyrir ferðaþjónustu á Bíldudal
(The importance of built heritage for tourism in Bildudalur)
Einar Gíslason Staða ferðaþjónustunnar á Íslandi í kreppu
(The state of Iceland’s tourism industry in the recession)
Elín Sigríður Óladóttir Gildi ferðaþjónustu á jaðarsvæðum og mikilvægi hennar fyrir byggð á slíkum svæðum (The value and importance of tourism in peripherial areas)
Eva Sigurðardóttir Áhrif kvikmynda á ferðalög
(The effect films have on tourism)
Guðmundur Atli Ásgeirsson Sambúð ferðaþjónustu og stóriðju - Viðhorfskönnun meðal borgarbúa árið 2007 (Tourism and heavy industry co-existence - Survey among urban citizens 2007)
Helga Björk Jósefsdóttir Landnámssetur Íslands, menningartengd ferðaþjónusta í Borgarnesi
(The Settlement Centre, culture tourism in the town of Borgarnes.)
Helgi Jónasson Fjölþættari tilboð fyrir ferðamenn -Reynsla stjórnenda friðaðra svæða í Bandaríkjunum-
(Greater Service Alternatives for Tourists -The Experience of Managing U.S. Reservations-)
Hólmfríður Br. Þrúðmarsdóttir Fjallaveröld - Möguleikar Hornafjarðar til lengingar ferðamannatímabilsins
(Mountain World - Possibilities for Hornafjordur to counteract seasonality in tourism)
Hulda Guðnadóttir Mikilvægi menningarhátíðar - menningartengsl þjóða í gegnum viðburðarferðamennsku: Dæmi frá Frönskum dögum á Fáskrúðsfirði
(Importance of a cultural festival - cultural relationship between two nations through event tourism. Example from the festival French days in Fáskrúðsfjörður)
Iðunn Ýr Ásgeirsdóttir Mikilvægi tengslaneta í ferðaþjónustu: Blái demanturinn - samstarfsverkefni ferðaþjónustuaðila á Reykjanesi
(Importance of networks in tourism: Blue Diamond - co-operative venture of tour operators in Reykjanes)
Ingibjörg H. Sveinbjörnsdóttir Skelfilegar minningar - dauði og hörmungar sem aðdráttarafl í ferðamennsku
(Horrendous memories, death and atrocity as a tourist attraction)
Jóhanna Dagbjört Gilsdorf Ísland: Áhugaverður möguleiki fyrir hvataferðir(Iceland: a Potential Destination for Incentive Travelers)
Jóhanna Björk Kristinsdóttir Iceland Express - Samsetning farþega og hvataþættir ferða(Iceland Express - Combination of passengers and demand for tourism)
Klara Jenný Sigurðardóttir Ævintýri í Mið og Suður Ameríku - einkenni, hvatning, upplifun og ímynd ungra ferðamanna(Adventures in Central and South America - typology, motivation, experience and image of young travellers)
Sara Magnea Tryggvadóttir Ímynd Hafnarfjarðar sem ferðamannastaðar
(Hafnarfjörður's destination image)
Sigrún Ýr Eyjólfsdóttir Birtingarmynd umræðu um  heilsuferðir í íslenskum dagblöðum 2001-2009(Black on white: The Manifestation of Discussion on Health Focused Trips in icelandic Media 2001-2009)
Sólveig Dögg Edvardsdóttir Íslenskir ferðamenn í Kenía - Hver er upplifun þeirra og áhrif?(Icelandic tourists in Kenya - their experiences and impact)
Tinna Traustadóttir Ímynd Icelandair og Iceland Express
(The image of Icelandair and Iceland Express)

 

Maí

Ferðamál og félagsvísindi

Hagnýting í dreifðum byggðum

Dagana 8. og 9. maí 2009 voru haldnir fjórir vinnufundir um ferðaþjónustu í samvinnu við árlega ráðstefnu Háskólans á Akureyri um þjóðfélagsfræði, mannfræðistofnun Háskóla Íslands og Akureyrabæ. Frumkvæði fundanna kom frá Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, bæjarstjóra á Akureyri, en á ferðamálaþingi í nóvember 2008 kallaði hún eftir fundi sem þessum og er þetta fyrsta skref í þá átt. Fundirnir voru haldnir við Háskólann á Akureyri, Sólborg. Þeir fóru þannig fram að fyrst voru ein eða fleiri stuttar framsögur, en síðan leiddi stjórnandi umræðu fundarmanna um þau ólíku þemu sem skilgreind voru (sjá að neðan), samhliða voru málefni sem fundarmenn bentu á  kortlögð og búin til tengslamynd.

Er tengslamyndin þannig afrakstur hugarflugs og nýtist sem fyrsta skref í átt að ítarlegri kortlagningu þeirra málefna sem til umræðu voru. Á myndunum ætti þannig að vera nokkuð tæmandi listi þeirra atriða er málefnið varða og hvernig þau tengjast.  

Þemu fundanna eru talin hér að neðan en í sviga aftan við þau má smella á ‚tengslamynd‘ til að fá .pdf af afrakstri fundanna:

Frá hugmynd að árangri /Auðlindir ferðaþjónustu – menning og náttúra (tengslamynd)

Skemmtiskipakomur (tengslamynd)

Millilandaflug til Akureyrar – hvað þarf? / Sjálfbærni og ferðaþjónusta (tengslamynd)

Jaðaríþróttir og ferðaþjónusta /Árangurssögur af Norðurslóðum (tengslamynd)

 

Apríl 

Rannsóknamiðstöð ferðamála í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands – Mannfræðistofnun stendur fyrir átta vinnufundum um ferðaþjónustu samhliða árlegri ráðstefnu Háskólans á Akureyri um þjóðfélagsfræði. Fundirnir eru haldnir við Háskólann á Akureyri, Sólborg dagana 8. og 9. maí 2009. Ráðstefnan öll er opin fyrir þátttakendur á vinnufundum. Upplýsingar um skráningu og dagskrá má finna hér Fundir fara þannig fram að fyrst er ein eða fleiri stuttar framsögur, en síðan mun stjórnandi leiða umræðu fundarmanna um þema fundarins. Ritari mun samhliða kortleggja málefni sem fundarmenn benda á og búa til tengslamynd. Fundirnir eru hugsaðir sem hugarflug um ólík svið ferðamála. Afrakstur hvers fundar verður tengslamynd sem sýnir hvaða málefni og aðgerðir eru nauðsynlegar hverjum málaflokki. Verður afraksturinn öllum aðgengilegur á vef Rannsóknamiðstöðvar ferðamála eftir fundina.

 

 

adalfundur saf 2009 119

Verðlaun fyrir lokaverkefni í ferðamálafræði

Rannsóknamiðstöð ferðamála veitir nú í fjórða sinn 100.000 króna verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin voru afhent á Aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) 2009, föstudaginn 27. mars, kl. 15.00, en fundurinn var haldin á Grand hótel, Reykjavík. Dómnefnd, sem skipuð er stjórn og forstöðumanni RMF, hefur metið sjö verkefni skólaársins 2008 sem þóttu afar góð og/eða mjög athyglisverð en þau eru:

Menningartengd ferðaþjónusta – menningarstofnanir Kópavogbæjar. B.Sc. ritgerð Agnesar Sifjar Andrésdóttur frá Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri.

The image of Iceland – Actual summer visitor image of Iceland as a travel destination. MS ritgerð Gunnars Magnússonar í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Mat íbúa Reykjanesbæjar á félagslegum áhrifum Ljósanætur. B.Sc. ritgerð Ingólfs Magnússonar frá land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands.

Íslensk tónlist sem landkynning. B.Sc. ritgerð Tómasar Viktors Young frá land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands.

Upplifun ferðamanna af akstri um hálendisvegi. BA ritgerð Ingibjargar Eiríksdóttur frá Hólaskóla – háskólanum á Hólum.

Viðhorf heimamanna til nýtingar Látrabjargs til ferðamennsku. B.Sc. ritgerð Ragnhildar Sveinbjarnardóttur frá land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands.

Heimavinnsla og sala afurða beint frá býli – mikilvægi íslensks hráefnis fyrir veitingastaði hér á landi. B.Sc. ritgerð Evu Sifjar Jóhannsdóttur frá land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Íslands.

Niðurstaða dómnefndar er að verðlaunin í ár hljóti Gunnar Magnússon fyrir MS ritgerð sína Ímynd Íslands – Ímynd raunverulegra sumargesta af Íslandi sem ferðamannastað. Ritgerðina skrifaði hann á ensku og heitir hún þá: The image of Iceland – Actual summer visitor image of Iceland as a travel destination.

Í umsögn dómnefndar segir:

Í verkefni sínu fjallaði Gunnar um ímynd landsins og vörumerki í hugum erlendra gesta sem voru þegar komnir til landsins. Hann lagði upp með að skoða hvort hægt væri að stilla saman markaðssetningu Íslands, Færeyja og Grænlands og gerði þannig samanburð á ímynd þessara landa í hugum gesta hér á landi. Hann notaðist við viðhorfskort sem gert var eftir afstöðu svarenda við fullyrðingum sem settar voru fram í spurningakönnun sem höfundur lagði fyrir sumarið 2008.

Með sömu spurningakönnun komst Gunnar að því hver ímynd Íslands væri í hugum erlendra gesta. Jafnframt heimfærði hann fullyrðingarnar sem svarendur tóku afstöðu til uppá þá ímynd sem nefnd Forsætisráðherra lýsti í skýrslu sinni sem kom út í febrúar 2008 og tók á ímynd Íslendinga á sjálfum sér.    

Komst Gunnar helst að því að ímynd landsins í hugum gesta einkenndist af öryggi, gestrisni og tækifærum til ævintýra meðal vingjarnlegs heimafólks í einstakri náttúru. Einnig komst Gunnar að því að ekki væri vænlegt til árangurs að stilla saman markaðssetningu Færeyja, Grænlands og Íslands, þar sem löndin hefðu afar ólíka ímynd í huga gesta sem hingað eru komnir. Að auki rökstuddi Gunnar með sannfærandi hætti að Noregur væri okkar helsta samkeppnisland er kæmi að hylli ferðamanna sem hingað eru komnir.

Dómnefndin telur að þetta verkefni sé verðugt og vandað framhald þeirrar vinnu sem fór af stað með heimsókn Simon Anholt á vegum Viðskiptaráðs Íslands nýverið og nefn á vegum forsætisráðuneytis. Gunnar tekur af festu og fagmennsku á bæði heimildum um ímyndir og vörumerki áfangstaða og heimfærir uppá vandaða könnun með stóru úrtaki. Þannig leggur verkefnið til hvernig markaðssetning Íslands getur byggt á styrkleikum sem þegar eru í hugum þeirra sem landið sækja heim og jafnframt rökstyður af hverjum má læra og stilla sér upp gagnvart í markaðssetningu landsins.

Verkefni Gunnars er sem áður sagði unnið samviskusamlega af metnaði og fagmennsku og er hann verðugur handhafi verðlauna Rannsóknamiðstöðvar ferðamála árið 2008.

Ritgerðina er hægt að skoða á Landsbókasafni eða kaupa gegnum Stúdentamiðlun v/ Hringbraut (www.studentamidlun.is)

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Hólaskóli, ásamt Ferðamálastofu og SAF starfrækja sameiginlega Rannsóknamiðstöð ferðamála, sem er miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum.

 

Mars 

Sjálfbær ferðamennska tengd skotveiði á norðurslóðum

Edward H. Huijbens forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála ræddi um sjálfbæra ferðamennsku tengdri skotveiði á norðurslóðum í útvarpsþættinum Vítt og breitt á Rás 1 miðvikudaginn 18. mars sl. Í þættinum sagði Edward frá North Hunt verkefninu og ýmsum möguleikum til útfærslu ferðaþjónustu í tengslum við skotveiði. Edward tók einnig dæmi af hreindýraveiðum á Austfjörðum þar sem þjónusta við veiðimenn hefur aukist til muna á síðustu árum. Edward talaði einnig um samvinnu við hin þátttökulöndin og hvaða lærdóm sé hægt að draga af slíkri samvinnu, en töluverð reynsla er komin í skotveiðitengdri ferðaþjónustu í hinum þátttökulöndum verkefnisins. Viðtalið er aðgengilegt á vefsvæði RUV á slóðinni:

http://dagskra.ruv.is/ras1/4416529/2009/03/18/1/

 

Áhrif Kröfluvirkjunar II á ferðaþjónustu og útivist

Landsvirkjun kannar nú möguleika þess að auka vinnslu jarðhita við Kröflu með því að reisa nýja virkjun, Kröfluvirkjun II, til viðbótar við þá virkjun sem fyrir er á svæðinu. Uppbygging virkjunarinnar verður gerð með hliðsjón af áætlaðri vinnslugetu jarðhitasvæðisins við Kröflu. Mývatnssveit hefur lengi verið aðdráttarafl ferðamanna og er Kröflusvæðið hluti af því aðdráttarafli sem dregur ferðamenn til Mývatnssvæðisins. Í kjölfar virkjanaframkvæmda við Kröflu á áttunda áratugnum var lagður vegur að virkjanasvæðinu vestan við Kröflu sem gjörbreytti aðgengi almennings að svæðinu. Kröflueldar sem brunnu frá 1975-1984 höfðu fengið mikla athygli í fjölmiðlum og vakið forvitni margra á að heimsækja svæðið. Náttúruperlur á borð við Víti og Leirhnjúk urðu í framhaldinu jafn sjálfsagður hluti ferðaáætlana ferðamanna á hringferð um landið og Gullfoss og Geysir. Til að mæta síauknum fjölda ferðamanna hefur Landsvirkjun staðið að töluverðri uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn á Kröflusvæðinu. Sumarið 2008 er áætlað að um hundrað þúsund ferðamenn hafi komið á Kröflusvæðið.  

Markmið þessarar rannsóknar er að meta möguleg áhrif fyrirhugaðra framkvæmda vegna byggingu Kröfluvirkjunar II á ferðamennsku umhverfis Kröflu og Mývatn. Viðhorf helstu hagsmunahópa til fyrirhugaðra framkvæmda voru könnuð með viðtölum. Að mati viðmælenda liggur gildi svæðisins fyrir ferðamennsku fyrst og fremst í verðmætum náttúruperlum, fjölbreyttri náttúru og einstakri jarðfræði, en ekki síður í góðu aðgengi að þessum náttúruauðlindum fyrir ferðamenn. Það að Kröflusvæðið er jafnframt dyr að víðernunum norður af Mývatni eykur á gildi náttúruupplifunar svæðisins.  

Rannsóknin er unnin af Rannsóknamiðstöð ferðamála fyrir Landsvirkjun að beiðni verkfræðistofunnar Mannvits. En skýrsluna unnu dr. Rannveig Ólafsdóttir sérfræðingur við miðstöðina og Eva Sif Jóhannesdóttir sá um gagnöflun og skrif.  

Áhrif Kröfluvirkjunar II á ferðaþjónustu og útivist

 

Súpufundur ferðaþjónustuaðila á Eyjafjarðarsvæðinu

Þann 10. mars sl. hélt Eyrún Jenný Bjarnadóttir sérfræðingur hjá RMF erindi á súpufundi ferðaþjónustuaðila á Eyjafjarðarsvæðinu í veislusal Friðriks V. Að fundinum stóð áhugafólk um öflugt samstarf ferðaþjónustuaðila í Eyjafirði og Akureyrarstofa. Erindi Eyrúnar fjallaði um mikilvægi samræmds kynningarefnis í svæðisbundinni markaðssetningu. Í erindinu lagði Eyrún áherslu á nauðsyn þess að skilgreina Eyjafjörð sem heildstæðan áfangastað ferðamanna og á mikilvægi mótunar sameiginlegrar sýnar og markmiða, sem nauðsynlegan grunn fyrir markvissa uppbyggingu og vöruþróun í ferðaþjónustu á áfangastað ferðamanna. Jafnframt kynnti Eyrún helstu niðurstöður úttektar RMF á kynningarefni ferðamannastaða sem var gerð með þróun kynningarefnis um Eyjafjörð sem ferðamannastað í huga. Fundurinn var mjög vel sóttur, en um 60 manns á sviði ferðaþjónustu, menningar, verslun o.fl. í Eyjafirði sátu fundinn. Aðrir frummælendur fundarins voru Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi og Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu. Fundarstjórn var í höndum Kristínar Sóleyjar Björnsdóttur kynningarstjóra Minjasafns Akureyrar.

Lesa kynningu Eyrúnar

Sjá erindi Eyrúnar

 

Febrúar

Styrkir frá Norræna nýsköpunarsjóðnum

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur hlotið tvo styrki frá Norræna nýsköpunarsjóðnum í samstarfi við kollega á Norðurlöndum. Annað verkefnið snýr að sagnamennsku og söguslóðum og hvernig ferðalangar upplifa áfangastaði í gegnum sögur. Hitt verkefni snýr að heilsutengdri ferðaþjónustu á Norðurlöndum. Markmið fyrra verkefnisins er að þróa notendavæna tækni sem getur gagnast við samskipti sögumanna og sagnaslóða á Norðurlöndum. Þetta verkefni skoðar sérstaklega hvernig sagnamennska fer fram, hvernig hún er skipulögð og hvort að sérstakur samskiptavettvangur gæti gagnast sagnamennsku á Norðurlöndum, eflt samvinnu milli hagsmunaaðila og bætt upplifun ferðamanna. Íslenski hluti þessa verkefnis mun sérstaklega skoða framsetningu sagnahefða sem spratt uppúr verkefninu Destination Vikings Sagalands, sem styrkt var af NPP og lauk fyrir tveimur árum. Seinna verkefni um Norræna heilsutengda ferðaþjónustu snýst um að skoða innihald og framsetningu heilsutengdrar ferðaþjónustu á Norðurlöndum. Velferð er hugtak sem notast sem regnhlíf yfir heilsutengda ferðamennsku á Norðurlöndum, og er því litið á hana sem undirgrein velferðaþjónustu. Verkefnið snýr að því að skýra tengsl velferðar og heilsutengdrar ferðaþjónustu sem getur þá nýst ferðaþjónustu aðilum í markaðssetningu. Sérstök áhersla er á Norðurlönd og hvort norræn velferð geti nýst sérstaklega sem vídd í markaðssetningu þá gegnum upplifun ferðalanga af hugmyndinni.

Verkefnið er til loka árs 2010

 

Janúar 

Sjálfbær skotveiðitengd ferðaþjónusta

Rannsóknamiðstöð ferðamála er einn af þremur íslenskum aðilum sem hlotið hefur styrk úr Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP). Verkefnið snýr að uppbyggingu skotveiðitengdrar ferðaþjónustu í Norður Evrópu (North Hunt) sem getur skapað atvinnu í dreifbýli.

Félagslega, vistfræðilega og hagfræðilega sjálfbær starfsemi er mikilvægur hluti af lífsviðurværi á norðurslóðum. North Hunt hefur þessa þrjá þætti að leiðarljósi í samstarfi sérfræðinga og frumkvöðla í fimm löndum. Markmiðið er að búa til leiðbeiningar fyrir þróun skotveiði¬tengdrar ferðaþjónustu.

North Hunt verkefnið er þriggja ára alþjóðlegt verkefni sem hefur hlotið styrk uppá 1.1 milljón evra úr Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins á tímabilinu 2008-2010. Verkefnið miðar að því að þróa sjálfbæra skotveiðitengda ferðaþjónustu á dreifbýlum svæðum í Norður Evrópu, þar sem rannsóknarsvæðin eru jaðarsvæði Finnlands, Svíþjóðar, Íslands, Skotlands og Kanada. „Alþjóðlegt samstarf tryggir breiða sérfræðiþekkingu á skotveiðitengdri ferðaþjónustu og mun verða grundvöllur alþjóðlegra tengslaneta í greininni þannig að fólk geti bæði lært af reynslu annarra sem stunda skotveiðitengda ferðaþjónustu og miðlað af sinni reynslu. Verkefnið er nú þegar komið vel á veg með fyrstu athugunum á félagslegu, hagrænu og vistfræðilegu umhverfi. Fyrstu niðurstaðna er að vænta innan skamms“, segir Hjördís Sigursteinsdóttir sérfræðingur hjá RHA – rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri og verkefnisstjóri North Hunt á Íslandi.

Skotveiðitengd ferðaþjónusta er mannaflafrek og munu dreifbýl svæði geta hagnast á slíkri náttúruferðamennsku. Hefð er fyrir veiðum í öllum þátttökulöndum og í mörgum er mikil þátttaka í veiðifélögum. Þannig er ein af forsendunum fyrir velgengni skotveiðitengdrar ferðaþjónustu aðlögun að veiðihefðum í hverju landi fyrir sig. „Það er einmitt ástæðan fyrir því að frumkvöðlar í skotveiðitengdri ferðaþjónustu eru fengnir til samstarfs við verkefnið“ útskýrir Hjördís og bætir við: „Það er einnig þörf á nákvæmum hagtölum varðandi skotveiðar til að meta möguleikana fyrir skotveiðitengda ferðaþjónustu sem lífsviðurværi á norðurslóðum, en einn af verkþáttum North Hunt verkefnisins er að safna slíkum gögnum sem og að bera saman veiðistjórnun í löndunum fimm“.

Verkefnisteymið er bjartsýnt á að verkefnið muni á árangursríkan hátt útfæra sjálfbæra skotveiðitengda ferðaþjónustu sem viðskiptatækifæri á dreifbýlum svæðum.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðunni www.north-hunt.org eða hjá Hjördísi Sigursteinsdóttur sérfræðingi hjá RHA – Rannsókna- og þróunar¬miðstöð Háskólans á Akureyri í síma 460-8905 eða hjordis@unak.is eða hjá Eyrúnu J. Bjarnadóttur sérfræðingi hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála í síma 460-8931 eða ejb@unak.is.

 

Tilurð og mótun ferðaþjónustu á Íslandi

Ferðaþjónusta á jaðrinum: Tilurð og mótun ferðaþjónustu á Íslandi er titill þriggja ára rannsóknarverkefnis sem dr. Gunnar Þór Jóhannesson, nýdoktor (post doc.) við Mannfræðistofnun Háskóla Íslands vinnur nú að. Rannsóknin er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís en Rannsóknamiðstöð ferðamála er náinn samstarfsaðili í verkefninu. Rannsóknarverkefnið skapar þverfaglegan samstarfsvettvang í rannsóknum á ferðamálum. Því er ætlað að efla uppbyggingu nýs fræðasviðs í mannfræði ferðamála og fellur um leið að rannsóknaráætlun Rannsóknamiðstöðvar ferðamála fyrir menningartengda ferðaþjónustu. Niðurstöður verkefnisins verða einna helst birtar í ritrýndum tímaritum á alþjóðlegum vettvangi en einnig er ætlunin að Mannfræðistofnun og Rannsóknamiðstöð ferðamála vinni saman að ráðstefnuhaldi á fræðasviðinu á verkefnistímanum.

Rannsóknin tekur til tímabilsins frá 1944 en leggur sérstaka áherslu á tímabilið frá 1987 til dagsins í dag. Vinna við rannsóknina hófst á vordögum 2008 með söfnun gagna um forsendur og mótun ferðaþjónustunnar. Athyglinni hefur einkum verið beint að söfnun og greiningu gagna sem snerta breytingar á samgöngum, stefnu í ferðamálum og upphafi skipulagðrar vinnu við kynningu Íslands sem ferðamannastaðar. Nánari lýsingu á verkefninu, markmiðum þess og framvindu má nálgast hér.